132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Alþjóðaþingmannasambandið 2005.

584. mál
[19:37]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2005.

Hlutverk Alþjóðaþingmannasambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum, hlúa að samstarfi þeirra og auka skilning milli þjóða. 143 þjóðþing mynda samtökin en sjö svæðisbundin þingmannasamtök eiga aukaaðild að sambandinu.

Þing Alþjóðaþingmannasambandsins tekur pólitískar ákvarðanir og ályktar um alþjóðamál. Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild, markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Sautján manna framkvæmdastjórn hefur m.a. umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess.

Nokkur mannaskipti urðu í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins á síðasta ári. Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki, gegndi formennsku í nefndinni til 1. október sl. er hann tók sæti í ríkisstjórn sem sjávarútvegsráðherra en þá tók sú er hér stendur við formennsku og er fulltrúi sama flokks. Aðrir í nefndinni voru Hjálmar Árnason varaformaður, þingflokki framsóknarmanna, og Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar. Í upphafi ársins 2005 voru varamenn Bjarni Benediktsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Jóhann Ársælsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki framsóknarmanna. Í upphafi 132. þings var og Jóhanna Sigurðardóttir kjörin varamaður í stað Jóhanns Ársælssonar. Ritari Íslandsdeildar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs, og eru henni þökkuð störf í þágu nefndarinnar sem unnin eru af þeirri alúð og metnaði sem einkennir Belindu. Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu.

Virðulegi forseti. Íslandsdeildin hefur verið ákaflega virk í starfi sambandsins og hefur sótt fundi og ráðstefnur á vegum þess. Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins. Vorþingið var haldið í apríl 2005 í Manila á Filippseyjum. Haustþingið er minna í sniðum og hefur á síðustu árum verið haldið í Genf. Auk þess heldur sambandið nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oftast um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Alþjóðaþingmannasambandið gefur reglulega út bækur, tímarit, handbækur og skýrslur sem nálgast má á skrifstofu Íslandsdeildarinnar og á vefsíðu sambandsins.

Á síðustu árum hefur vakið sérstaka athygli árleg samantekt samtakanna á stöðu kvenna í þjóðþingum og er iðulega vitnað til þess í umræðum og í fjölmiðlum. Sú áhersla og mikla vinna sem Alþjóðaþingmannasambandið leggur í að styðja við og styrkja hlut kvenna í stjórnmálum með ráðstefnum, fundum og útgáfu handbóka og skýrslna svo og með ýmsum formlegum og óformlegum hætti er aðdáunarverð.

Á haustfundi samtakanna sem haldinn var í Genf, eins og ég sagði áðan, var kjörinn nýr formaður Alþjóðaþingmannasambandsins. Það var Pier Ferdinando Casini, forseti ítalska þingsins, kjörinn í stað Sergio Paez Verdugo frá Chile. Á starfsárinu var einnig lögð mikil vinna í áframhaldandi endurskipulagningu á starfi samtakanna sem snýr að skipulagi þeirra, starfi þingmanna og starfsmanna samtakanna, upplýsingamiðlun og tengsl við þjóðþing, Sameinuðu þjóðirnar, stofnanir Sameinuðu þjóðanna og önnur alþjóðasamtök.

Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins tilheyrir svokölluðum tólfplús-hópi, sem eru samtök vestrænna lýðræðisþjóða. Hópurinn hittist daglega þegar þing sambandsins eru haldin til að samræma afstöðu og ræða málefni sem eru til umræðu á þingunum. Þess ber að geta að sú sem hér talar, formaður nefndarinnar, var valin fyrir hönd tólfplús-hópsins til að vera skýrsluhöfundur og undirbúa umræðu um samstarf þjóðþinga og Sameinuðu þjóðanna til að stuðla að heimsfriði, sérstaklega með tilliti til baráttunnar gegn hryðjuverkum á haustfundi samtakanna 2006. Íslandsdeildin tekur jafnframt þátt í formlegu samstarfi landsdeilda Norðurlandaþjóða til að samræma afstöðu Norðurlanda. Tveir slíkir fundir voru haldnir á árinu.

Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins, í fyrsta lagi friðar- og öryggismálanefnd og hefur Hjálmar Árnason sérstaklega einbeitt sér að störfum þeirrar nefndar. Í öðru lagi er nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál og var Einar K. Guðfinnsson formaður þeirrar nefndar á síðasta starfsári og stjórnaði hann öllum fundum nefndarinnar á vorþingi Alþjóðaþingmannasambandsins í apríl 2005. Ásta Möller tók þátt í störfum nefndarinnar á haustfundi samtakanna. Í þriðja lagi er nefnd um lýðræði og mannréttindamál en þar hefur Kristján L. Möller tekið sérstaklega þátt og Jóhanna Sigurðardóttir á haustfundi samtakanna sem haldinn var í Genf í október sl.

Auk þeirra tveggja þinga Alþjóðaþingmannasambandsins tók Íslandsdeild þátt í þingmannafundi IPU, sem stendur fyrir Inter-Parliamentary Union, um málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem haldinn var í tengslum við ráðherrafund hennar í Hong Kong. Drífa Hjartardóttir, Magnús Stefánsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, starfandi ritari Íslandsdeildar IPU, sóttu þann fund í desembermánuði sl. Þingmennirnir voru jafnframt hluti af opinberri sendinefnd Íslands á ráðherrafundinum og gafst þeim þannig tækifæri til að fylgjast með störfum framkvæmdarvaldsins í þeim mikilvægu hagsmunamálum sem til umfjöllunar voru og koma áherslum sínum á framfæri. Þessi fundur er dæmi um breyttar áherslur Alþjóðaþingmannasambandsins um að taka upp formlegt samstarf við alþjóðastofnanir með það að markmiði að halda utan um þingmannasamstarf á þeim vettvangi.

Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggur ítarleg skýrsla Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sem gerir frekari grein fyrir þeim umræðum og ályktunum sem hafa farið fram á vettvangi þess, m.a. áherslum nefndarmanna í umræðum á fundum þess. Alþjóðaþingmannasambandið er mikilvægur vettvangur fyrir þingmenn þjóða til að eiga samskipti og ræða mál sem skipta miklu í alþjóðlegum samskiptum þjóða. Þingmenn mætast á jafnréttisgrunni og þar gefst fulltrúum lítilla þjóða ómetanlegt tækifæri til að koma áherslum sínum á framfæri milliliðalaust í formlegum og óformlegum umræðum.

Ég lýk þá máli mínu og undir skýrsluna rita auk mín, framsögumanns, Hjálmar Árnason, varaformaður og Kristján L. Möller.