132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

NATO-þingið 2005.

585. mál
[19:57]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé ekki að annað útiloki hitt og ég tel að þó við leggjum rækt við þátttöku okkar og starf innan NATO-þingsins og þess sambands þá útiloki það alls ekki að við tækjum í ríkari mæli þátt í starfsemi ÖSE. Það hefur reyndar margsinnis komið upp í þessum umræðum.

En ég skal vera alveg hreinskilinn við hv. þingmann. Ég el þá von í brjósti að Atlantshafsbandalagið breytist og það verði ekki, eins og hv. þingmaður gjarnan lýsir því, árásarbandalag. Ég held að það sé það ekki í dag. Það þurfti ekki Atlantshafsbandalagið til þess að t.d. íslenska ríkisstjórnin lýsti stuðningi sínum við innrásina í Írak.

Í reynd er það þannig að enda þótt Atlantshafsbandalagið sé í vaxandi mæli að taka að sér aðgerðir, t.d. í Afganistan, þá var Atlantshafsbandalagið ekki formlega aðilinn sem hóf þær aðgerðir sem þar var gripið til. Það eru einstök ríki sem taka þar þátt, og eins og ég rifjaði upp fyrr í dag þá er það svo að Vinstri hreyfingin – grænt framboð á aðild að ríkisstjórn í Noregi, eins og reyndar Samfylkingin í gegnum systurflokk sinn þar. Sú ríkisstjórn hefur t.d. nýlega, væntanlega samkvæmt einhvers konar óskum frá Atlantshafsbandalaginu og ríkjum þar innan, sent þotur til Afganistans. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður mundi gera ef það væri beinlínis svo að íslenska ríkisstjórnin mundi, hugsanlega með samþykki Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, senda herfylki til Afganistans. Nú veit ég að hv. þingmaður er andsnúinn því sem við höfum þegar gert þar. En í hnotskurn er svar mitt það að þátttaka í öðru útilokar ekki þátttöku og þróun á þátttöku í (Forseti hringir.) hinu.