132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

NATO-þingið 2005.

585. mál
[20:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að hafa langt mál þó fullt tilefni sé til að fara í langa og mikla umræðu um þetta efni. Ég get alveg tekið undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni varðandi þá hörmulegu atburði sem áttu sér stað í Rúanda á sínum tíma. Hann nefnir einnig Darfúr, að þar hafi verið og sé enn nauðsyn til staðar því að þar sé ástandið enn þá mjög alvarlegt og mjög slæmt. En á sínum tíma í Rúanda hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir þau hryllilegu fjöldamorð sem þá voru framin ef um það hefði myndast samstaða. Það mætti nefna mörg önnur dæmi. Það má t.d. nefna Tsjetsjeníu þar sem Rússar hafa farið með ofbeldi og fjöldamorðum miðstýrðum frá Moskvu, þar sem ekki hafa verið framin minni ódæðisverk en þar sem verst gerist.

En hvers vegna hreyfir enginn andmælum svo eftir verði tekið? Það er vegna þess að Tsjetsjenía er á áhrifasvæði stórveldis. Ég tel að heimurinn þurfi að komast undan því ægivaldi sem stórveldin hafa yfir öðrum þjóðum.

Það var mér mjög lærdómsríkt þegar ég á sínum tíma átti þess kost að vera á þingi Sameinuðu þjóðanna í hálfan mánuð árið 1997 og fylgjast með starfi innan veggja þeirra samtaka. Það sem mér þótti mest sláandi var hvernig ríki heimsins mynduðu blokkir. Það voru ríku vestrænu iðnaðarþjóðirnar sem ekki eru allar vestrænar. Þar var Ástralía líka innan borðs og þau ríki sem áttu samleið í efnahagslegu og pólitísku tilliti. Síðan voru fátæk ríki þriðja heimsins svokallaða. Áður hafði austurblokkin verið til, kommúnistablokkin sem er svo til hrunin. En innan þessara vébanda tóku menn sínar ákvarðanir og réðu sínum ráðum, og það er enginn Olof Palme lengur í Evrópu. Þær raddir eru þagnaðar sem voru sjálfstæðar.

Það sem ég vildi sagt hafa, ég er að reyna koma þessu út úr mér á tiltölulega óskipulegan hátt, er að við eigum að brjótast undan ægivaldi stórveldanna, út úr þessum gömlu hernaðarblokkum og reyna að fara að tala máli samvisku okkar, sjálfstætt. Það eiga Íslendingar að gera. Forsenda þess er að ganga úr hernaðarbandalaginu NATO. Ég tel að það væri til góðs. Ég held að það væri heiminum til góðs að sundra því bandalagi.

Það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki hafa einhver tæki til að taka á einræðisherrum og sporna gegn ofbeldi þegar það er uppi. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að slíkir möguleikar þurfa að vera fyrir hendi. Það er á þeirri forsendu sem ég nefndi ÖSE hér áðan. Ég minnist þess að á Balkanskaganum á sínum tíma var verið að leggja grunninn að eftirlitskerfi á vegum ÖSE þegar Bandaríkjamenn slógu í borðið og ákváðu að fara sínu fram.

Það sem þeir síðan hafa gert aftur og ítrekað er að beita NATO. Það hafa þeir gert í Afganistan. Það hefur verið rætt um slíkt í Írak. Og í Miðausturlöndum hefur verið talað um að setja sveitir á vegum NATO inn á herteknu svæðin. (Gripið fram í: Arafat talaði um það.) Það teldi ég ekki vera til góðs. Arafat talaði um það. Ég kannast ekki við það. Það má vera að það sé rétt hjá hv. þingmanni.

Ég man hitt að fyrir fáeinum mánuðum var haldin ráðstefna, ég held að hún hafi verið í Egyptalandi, þar sem fjallað var um þessar hugmyndir NATO. Það var boðað til fundar. Sumum var boðið, öðrum ekki. Þar var valið úr. Ég man að ég skrifaði um þetta grein og hefði gjarnan viljað rifja hana upp núna. (Gripið fram í: Hún er á heimasíðunni ogmundur.is.) Hana er að finna á heimasíðunni minni, það er alveg rétt, þar er sagt frá þessum fundi og framgöngu NATO, þar sem alla vega róttæk öfl og frelsissinnuð öfl á þessum slóðum frábuðu sér aðkomu hernaðarbandalagsins NATO sem menn sjá fyrst og fremst sem framlengingu á Bandaríkjunum og sterkustu herveldunum í Evrópu og þá ekki síst Bretlandi sem hefur fylgt Bandaríkjastjórn mjög að málum í þeim voðaverkum sem hún er ábyrg fyrir á síðustu árum.