132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

NATO-þingið 2005.

585. mál
[20:10]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég minnist þess að ég spurði sjálfur á fundi þar sem framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins var hvort það kæmi til greina, án þess að taka afstöðu til þess, að Atlantshafsbandalagið tæki að sér friðargæsluhlutverk í Palestínu. Tilefni þess var að þær vangaveltur komu fram meðal Palestínumanna sjálfra, meðal Al Fata. Það var tilefni til þeirrar umræðu. Ekki treysti ég mér nú til að fullyrða það nákvæmlega hverjir tóku undir það hér á landi. En það voru ýmsir sem komu mér á óvart.

Til marks um það hvað það er oft erfitt að taka ákvarðanir þegar um líf og dauða er að tefla þá nefni ég það atvik sem hv. þingmaður nefndi hér, þegar loftárásirnar voru gerðar á Kosovo. Ég minnist þess t.d. í umræðum í útvarpi að ég tók undir þær. Ég hef margsinnis verið atyrtur fyrir það. Á þessum tíma var um það að ræða að menn urðu að taka afstöðu. Hvað átti að gera? Það var verið að drepa þúsundir manna nákvæmlega þann dag sem ráðist var í þessar aðgerðir. Það var ráðist í loftárásirnar til að stilla til friðar. Reka frá þá heri eða þær sveitir sem lutu forustu manna sem núna er verið að draga til dóms fyrir stríðsglæpi í Haag.

Það kann að vera að þetta hafi verið röng ákvörðun. En á þeim tíma urðu þjóðir heimsins með einhverjum hætti að bregðast við. Þetta var ákvörðun sem var tekin, rétt eða röng, við þær aðstæður að enn eitt þjóðarmorðið var í uppsiglingu á Balkanskaga. Það var verið að drepa þúsundir manna, konur, börn og karla, þann dag.

Til marks um það líka hvað það er oft erfitt að taka ákvarðanir nefni ég að hv. þingmaður tilheyrir alþjóðlegri hreyfingu sem á fulltrúa í ríkisstjórn Noregs sem hefur setið áfram þó að ríkisstjórnin hafi tekið þátt í aðgerðum NATO í Afganistan með því að senda þangað eina af þremur flugþotnaherdeildum. (Forseti hringir.) Það sýnir bara hvað það er vandlifað í þessum heimi. Ekki hafa þeir góðu herrar sem hv. þingmaður styður farið úr ríkisstjórninni í mótmælaskyni. Mundi hann gera það hér á Íslandi? (Forseti hringir.) Ég skal svara fyrir hans hönd. Ég held að hann mundi gera það.