132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

NATO-þingið 2005.

585. mál
[20:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er rétt að ríkisstjórn Noregs er að taka þátt í stríðinu í Afganistan eða Írak og það með stuðningi vinstri hreyfingarinnar eða vinstri flokksins, sem ég held að sé ekki, þá finnst mér það vera ámælisvert, vissulega. (Gripið fram í: Hún situr í ríkisstjórninni.) Hún situr í ríkisstjórninni sem gerir það, já, já, og mér finnst það vera ámælisvert ef svo er.

Hins vegar held ég að þetta sé svolítið málum blandið þó að ég kunni ekki allar staðreyndir málsins, alls ekki, og treysti mér ekki til að ræða það þess vegna nánar. En eftir því sem ég best veit hefur verið uppi ágreiningur um áherslur í ríkisstjórninni hvað þetta varðar og svo mikill varð hann að það leiddi til þess að efnt var til sérstaks fundar með sendiherra Bandaríkjastjórnar af hálfu norska utanríkisráðherrans til að skýra afstöðu norsku stjórnarinnar þrátt fyrir þessi mótmæli og þrátt fyrir afstöðu vinstri flokksins. En þetta er mál sem ég einfaldlega mun kynna mér nánar.

Ef það er rétt að hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra iðrist þess að hafa stutt innrásina í Írak og heitið stuðningi Íslendinga með því að gera okkur eina af viljugu þjóðum heimsins í því efni, ber honum að sjálfsögðu skylda til að koma hér á Alþingi og lýsa þessu yfir vegna þess að við höfum margoft krafið hann um það, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sá sem hér stendur og fleiri þingmenn úr okkar flokkum. Það er því eðlilegt að hann geri hreint fyrir sínum dyrum.

Varðandi ástand mála (Forseti hringir.) á Balkanskaga á sínum tíma er það langt og flókið (Forseti hringir.) mál sem þyrfti lengri umræðu við til að eitthvert gagn yrði að.