132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Evrópuráðsþingið 2005.

588. mál
[20:41]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hefur í 27. sinn lagt skýrslu fyrir Alþingi. Skýrslan er nokkuð viðamikil um störf Íslandsdeildarinnar á árinu 2005. Hún er á þskj. 863. Ég vil fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum.

Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um hugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið fyrir sig samningum og bindandi fjölþjóðasáttmálum á ýmsum sviðum.

Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru taldir mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem koma á lýðræðisfyrirkomulagi og réttarríki en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og -samtök. Í því sambandi ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu.

Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 46 aðildarríkja Evrópuráðsins og gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi þess, enda er þingið hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja 315 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins, þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði, fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Mikilvægi þingsins felst einkum í:

Að eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum og tilmælum til ráðherranefndarinnar,

Að hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir.

Að vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinganna.

Á árinu 2005 bar í störfum þingsins hæst framtíð Evrópuráðsins sjálfs. Þriðji leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn í Varsjá í Póllandi dagana 16.–17. maí, en Pólverjar fóru með formennsku í Evrópuráðinu fyrri part árs. Á fundinum var rætt um hvernig skilgreina bæri framtíðarhlutverk Evrópuráðsins og var lögð áhersla á að skýra hlutverk og starfssvið þess í samhengi, m.a. við Evrópusambandið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Þá undirrituðu þjóðarleiðtogar Evrópuráðsríkjanna þrjá nýja sáttmála um peningaþvætti, mansal og baráttu gegn hryðjuverkum.

Enn fremur var samþykkt á fundinum framkvæmdaáætlun Evrópuráðsins fyrir næstu árin. Þar er lögð áhersla á að standa vörð um sameiginleg grundvallargildi mannréttinda, reglur réttarríkis og lýðræðis og að stuðla að auknu öryggi Evrópubúa, uppbyggingu mannúðlegs samfélags og aukinni samvinnu við aðrar evrópskar stofnanir og samtök.

Starfsemi Evrópuráðsþingsins var víðfeðm á árinu og málaflokkarnir sem til umræðu voru á þinginu sjálfu og í nefndum þess voru fjölmargir. Ég mun ekki fara yfir einstaka fundi Evrópuráðsþingsins en vil nefna helstu mál sem til umræðu komu. Rætt var um sambúð Evrópu og Bandaríkjanna, flóðahamfarir í Asíu og framlag Evrópuráðsríkja til uppbyggingar eftir hörmungarnar, friðarhorfur í Miðausturlöndum, drög að sáttmála um varnir gegn hryðjuverkum, kjarnorkuáætlanir Írana og viðbrögð alþjóðasamfélagsins við þeim. Loks var fjallað um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn fuglaflensu.

Nokkur mál vöktu sérstaka athygli í fjölmiðlum og má þar nefna skýrslu um aðstæður fanga Bandaríkjastjórnar í Guantanamó-herstöðinni. Í þeirri skýrslu var Bandaríkjastjórn gagnrýnd harðlega fyrir meðferð á föngum sem haldið hefur verið um árabil í herstöðinni. Á þinginu var einnig rætt mikið um það hvernig Rússum gengur að uppfylla skyldur sínar sem aðildarríki að Evrópuráðinu en framferði rússneskra yfirvalda, einkum í Kákasus, var mjög gagnrýnd. Lögð var áhersla á að taka yrði á vandamálum sem ógnuðu stöðugleika í landinu með lausnum sem samrýmdust grundvallargildum Evrópuráðsins og voru lagðar fram ýmsar tillögur til úrbóta.

Konur og trúarbrögð í Evrópu voru einnig mikið til umræðu og hvatti Evrópuráðsþingið aðildarríki ráðsins til að beita sér fyrir því að þau veittu öllum konum búsettum í ríkjum ráðsins fulla vernd gegn brotum á rétti sínum sem rekja má til trúarskoðana.

Málefni er standa Íslendingum afar nærri voru tekin til umræðu, svo sem orkumál og endurnýjanlegir orkugjafar.

Íslandsdeildin tók að venju virkan þátt í þingstörfunum og sótti nefndarfundi í viðkomandi nefndum. Að öðru leyti um þessa starfsemi vísa ég til fyrirliggjandi skýrslu sem veitir greinargóða lýsingu á störfum þingsins og þátttöku Íslandsdeildar í mikilvægum málaflokkum.

Dagana 12.–13. september 2005 hélt jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins fund í Reykjavík og var Íslandsdeild gestgjafi hans. Fundurinn fór fram á Hótel Loftleiðum og voru þátttakendur um 50, þingmenn, starfsmenn þjóðþinga aðildarríkjanna ásamt sérfræðingum.

Af tíu málefnanefndum Evrópuráðsþingsins er jafnréttisnefndin yngst, stofnuð árið 1998. Frá upphafi hefur nefndin fjallað um jafnréttismál í víðum skilningi, kvenréttindi og baráttuna gegn ofbeldi á konum. Nefndin hefur barist fyrir aukinni þátttöku kvenna á öllum sviðum þjóðlífsins. Á síðustu tveimur árum hefur hún beitt sér mjög í málefnum er lúta að mansali og vændi.

Meðal efnis á fundi jafnréttisnefndarinnar í Reykjavík var samþætting vinnu og fjölskyldulífs og skýrsla um konur og trúarbrögð í Evrópu sem mikil umræða skapaðist um. Einnig áttu sér stað skoðanaskipti milli íslenskra þingmanna og nefndarmanna um ýmis mál. Vöktu lög Íslendinga um fæðingarorlof mikla athygli, auk mikillar þátttöku kvenna í stjórnmálum hér á landi. Umræður voru gagnlegar og góðar og var áhugi nefndarmanna mikill. Þess má geta að fundurinn var framlengdur vegna þessa. Hluti fundarins var að þessu sinni helgaður hlutverki karla í jafnréttisverkefnum. Þar héldu ávörp meðal annarra Árni Magnússon, fyrrverandi félagsmálaráðherra og Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs.

Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn þingmennirnir Sólveig Pétursdóttir formaður, Siv Friðleifsdóttir varaformaður, sem jafnframt var formaður félagsmálanefndar Alþingis og Margrét Frímannsdóttir. Aðrir þingmenn sem sóttu fundinn voru Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður félagsmálanefndar Alþingis, Kolbrún Halldórsdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Hæstv. forseti. Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins heimsótti Alþingi hinn 5. júlí 2005. Á móti fulltrúanum tók Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, Sólveig Pétursdóttir formaður, Siv Friðleifsdóttir varaformaður og Össur Skarphéðinsson, ásamt Belindu Theriault, starfandi ritara. Var mannréttindafulltrúanum boðið til hádegisverðar þar sem staða mannréttindamála á Íslandi var rædd. Þá var rætt almennt um starf mannréttindafulltrúans og taldi Íslandsdeildin mikilvægt að auka sýnileika hans á Evrópuráðsþinginu. Mikið gleðiefni fyrir Íslandsdeildina var að fulltrúar Evrópuráðsþingsins í jafnréttisnefnd og mannréttindafulltrúinn skyldu koma hingað til lands og kynna sér þessa mikilvægu málaflokka og það sem áunnist hefur í jafnréttismálum hér á landi.

Á undaförnum árum hefur verið lögð ríkari áhersla á alþjóðlegt samstarf en áður. Það skiptir miklu máli þar sem samfélag þjóðanna hefur breyst mikið. Jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins heimsótti okkur á síðasta ári en þess má geta að fundir nefnda Evrópuráðsþingsins eru fjölmargir á hverju ári en á þinginu starfa tíu málefnanefndir og 24 undirnefndir þeirra. Sé tekið dæmi um þann fjölda funda sem fyrirhugaðir eru á þessu ári frá deginum í dag og til ársloka eru þeir samtals 63 í fyrrnefndum nefndum þingsins.

Það liggur í augum uppi að þingmenn í Íslandsdeildinni eiga þess ekki kost að sækja alla þá nefndarfundi sem boðið er upp á því að það mundi kosta of miklar fjarvistir frá störfum Alþingis. Í dag skipta hv. þingmenn í Íslandsdeildinni með sér verkum og starfar hver í sínum nefndum Evrópuráðsþingsins og einbeita sér enn fremur að sumum þeirra fremur en öðrum. Á árinu 2005 má einkum nefna störf fulltrúa Íslandsdeildarinnar í stjórnarnefnd, efnahagsnefnd og umhverfis- og landbúnaðarnefnd. Af hálfu Íslandsdeildar voru á árinu 2005 samtals sóttir sex nefndarfundir utan hefðbundinna þingfunda Evrópuráðsins, en eins og áður kom fram fara nefndarfundir jafnframt fram á þeim fjórum þingtímabilum sem Evrópuráðsþingið starfar á.

Ég vil að lokum gera grein fyrir því að nokkrar breytingar urðu á skipun í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins á síðasta ári. Fram til 1. október 2005 voru aðalmenn Íslandsdeildar þau Sólveig Pétursdóttir formaður, frá Sjálfstæðisflokki, Siv Friðleifsdóttir varaformaður, frá Framsóknarflokki og Össur Skarphéðinsson, frá Samfylkingu. Varamenn voru sá sem hér stendur fyrir Sjálfstæðisflokk, Birkir J. Jónsson fyrir Framsóknarflokk og Margrét Frímannsdóttir fyrir Samfylkingu.

Í upphafi 132. löggjafarþings voru í Íslandsdeild aðalmenn sá sem hér stendur fyrir Sjálfstæðisflokk, Siv Friðleifsdóttir var áfram varaformaður fyrir Framsóknarflokk og Margrét Frímannsdóttir tók við sæti aðalmanns fyrir hönd Samfylkingar. Varamenn voru kjörnir Einar Oddur Kristjánsson frá Sjálfstæðisflokki, Birkir J. Jónsson frá Framsóknarflokki og Guðrún Ögmundsdóttir frá Samfylkingu. Ritari Íslandsdeildar var Andri Lúthersson fram eftir ári en 1. september 2005 tók Arna Gerður Bang alþjóðaritari við því starfi.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, þakka Íslandsdeildarmönnum gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi sem og fastafulltrúa Íslands hjá Evrópuráðinu sem hefur verið þingmannanefndinni innan handar um margvíslega hluti.