132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[10:06]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að leiða hjá mér þann málflutning sem viðhafður var af hv. síðasta ræðumanni í ræðustóli. Auðvitað hafa þingmenn fullan rétt á því að vera í ójafnvægi endrum og sinnum. Það er bara þannig. (Gripið fram í.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom í ræðustól með afar málefnalegt innlegg í málið til hæstv. forseta varðandi það að nú sé ný staða komin upp í málinu. Staðan er sú að það hafa náðst samningar milli þjóðanna þriggja, Noregs, Íslands og Liechtensteins um það hvaða vatnatilskipun Evrópusambandsins eigi að fara í lög viðkomandi landa.

Við höfum barist fyrir því stjórnarandstaðan á fullkomlega málefnalegum grunni að vatnatilskipunin verði innleidd áður en þau atriði sem hér á að fara að leiða í lög verða innleidd. Þetta er málefnalegt innlegg og nú sjáum við í nýrri stöðu leið til sátta í málinu. Við biðjum hæstv. forseta í mestu vinsemd að líta á þá nýju stöðu málsins og athuga hvort hér sé ekki komið tækifæri fyrir okkur til að skapa sátt í málinu. Ég held að bæði stjórnarandstaða og stjórnarþingmenn á þingi vilji sátt um málið. Ég er sannfærð um það, frú forseti.

Ég tel því að hér sé um fullkomlega málefnalegt innlegg að ræða sem hæstv. forseti þyrfti að taka afstöðu til og auðvitað sem fyrst, helst bara núna þannig að við getum verið laus við að standa í einhverju þrefi eða stappi við stjórnarþingmenn sem við vitum að er ekki skapandi, skapar ekki lausn í málið. Nú skulum við reyna að vera skynsöm. Viðurkennum að ný staða er uppi í málinu, setjumst yfir það og náum skynsamlegri niðurstöðu.