132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[10:10]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þau mál sem tekist er á um í þingsalnum þessa dagana og er ástæða þeirra miklu ræðuhalda sem hér fara fram eru auðlindamál og þetta er ekki í fyrsta sinn sem við tökumst á um auðlindamál í þingsalnum. Við tökumst á um eignarhald, nýtingarrétt og verndun auðlinda. Það hefur margsinnis farið fram umræða í þinginu um slík mál og stundum hefur auðvitað stjórnarandstaðan, því miður, þurft að láta í minni pokann. Það þurfti hún að gera 1998 þegar auðlindalögin voru sett sem að mörgu leyti eru mjög gölluð.

Fyrir og eftir síðustu jól stóð yfir mikil umræða um þau lög og breytingar á þeim lögum sem hæstv. iðnaðarráðherra lagði til. Við komum þá í veg fyrir að frumvarp iðnaðarráðherra, eins meingallað og það var, næði fram að ganga. Þau mistök náðum við að leiðrétta hér með svokölluðu málþófi eins og stjórnarþingmenn kjósa að kalla það. Ráðherrann kom eftir jól og viðurkenndi að þetta hefði verið meingallað frumvarp sem hún lagði fram og sátt náðist í málinu. Sem betur fer náðist sátt og stundum þarf einfaldlega stjórnarandstaðan að tala til að stjórnarliðarnir nái að hugsa og skilja og átta sig á því hvað þeir eru að gera. Núna er eina ferðina enn verið að gera alvarleg mistök með frumvarpi til vatnalaga sem hér liggur fyrir. Verið er að afmarka einkaeignarréttinn, setja orkunýtingarlög sem lúta að vatninu án þess að almannarétturinn og umhverfisrétturinn sé skilgreindur og það er þessi almannaréttur og þessi umhverfisréttur sem er skilgreindur í vatnatilskipun Evrópusambandsins sem lögtaka þarf um leið og kveðið er á um nýtinguna eins og gert er í vatnalögunum.

Þess vegna spyr hv. þm. Össur Skarphéðinsson hvað líður frumvarpi í þeim efnum nú þegar náðst hefur eftir því sem okkur skilst niðurstaða um hvað eigi að fara af tilskipuninni í íslenskan rétt.