132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[10:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á að samkvæmt starfsáætlun þingsins fyrir árið 2005–2006 var ekki gert ráð fyrir fundi í dag. Í öðru lagi varðandi starfsáætlun fyrir vikuna sem birt var sl. mánudag var ekki gert ráð fyrir fundi í dag.

Venjan er sú að dagskrá er haldin nema einhver veruleg náttúruvá, slys eða hryllilegar hörmungar gangi yfir til að breyta þurfi dagskrá skyndilega með svo litlum fyrirvara. Hvað er það þá sem rekur á eftir því að breyta hér dagskrá? Jú, það er einn liðurinn í einkavæðingaræði Framsóknarflokksins. Það þarf að einkavæða vatnið. Það getur verið hættulegt að láta það bíða fram yfir helgi að hæstv. iðnaðarráðherra fái það samþykkt hér að fá tækifæri til að einkavæða vatnsauðlindina. Auðlindina vatn.

Frú forseti. Það stendur ekki á þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs né öðrum hér að ræða þetta mál. En við viljum eðlilega halda okkur við fundardagskrá. Ég spyr forseta: Hvaða ofboðslega vá er fyrir dyrum? Ég get ekki séð annað séð en heilsa hæstv. iðnaðarráðherra sé með þeim hætti að þess vegna ætti að vera allt í lagi að fresta málinu fram yfir helgi til að ræða það frekar þá. Er heilsa hæstv. ráðherra í húfi?

Þetta er valdníðsla gagnvart þinginu þegar verið er að keyra mál sem er alls ekki svo brýnt að ljúka umræðu um, eins og hér er gert. Óttast ráðherra Framsóknarflokksins að vatnið verði allt runnið burt áður en hún fær tækifæri til að einkavæða það?

Nei, frú forseti. Ég mótmæli því að við séum að halda fundi á Alþingi um geðþóttamál hæstv. iðnaðarráðherra á degi sem allir aðrir hafa (Forseti hringir.) ráðstafað í eitthvað annað.