132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[10:22]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er algengt að pólitískar samstöðuaðgerðir birtist á Austurvelli hinum megin við þessa glugga hér á bak við mig en fátíðara að menn efni til pólitískra samstöðuaðgerða í sjálfum þingsalnum. Þó kemur það fyrir og gaman að sjá þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn fallast í faðma og sjálfstæðismenn hafa látið undan þeirri kröfu forsætisráðherra og iðnaðarráðherra hæstvirtra, að lýsa yfir stuðningi við þá í þessu máli, því þeir hafa hingað til staðið nokkuð einir uppi í því. Einkum er það ánægjulegt að sjá kappa eins og hv. þm. Einar Odd Kristjánsson koma hér og taka sér stöðu við hliðina á félögum sínum, Birki Jóni Jónssyni og öðrum jafningjum hans í þessu máli.

Þessi umræða hófst hins vegar með því að hv. 1. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður spurði ráðherra tvo, annar var hér staddur, hinn er nú kominn í salinn, að því hvernig háttaði til með Evróputilskipun um vatn. Hvort búið væri að semja um hana innan EES sem fréttir hafa borist af og hvað liði þá því frumvarpi sem í greinargerð með vatnalagafrumvarpinu í fyrra var sagt liggja fyrir í drögum í umhverfisráðuneytinu. Í greinargerð með vatnalagafrumvarpinu núna er líka sagt að það liggi fyrir í drögum í umhverfisráðuneytinu.

Af hverju er þetta frumvarp ekki komið fram? Hvað stendur í vegi fyrir því? Er það hæstv. iðnaðarráðherra og menn hennar og þeir sem á bak við hana standa sem standa í vegi fyrir því að hæstv. umhverfisráðherra geti flutt það frumvarp sem hefur legið fyrir í drögum í umhverfisráðuneytinu í að minnsta kosti tvö ár?

Nú er kominn tími til að ráðherrarnir svari því og hagi sér ekki eins og hæstv. iðnaðarráðherra gerði áðan þegar hún stóð hér föl og fá í stólnum og fjargviðraðist um þjóðlendur sem hún hefur greinilega meiri áhyggjur af en vatninu, heldur eiga umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra að svara þessari spurningu.