132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[10:42]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að leiða hjá mér þennan pirring hv. þm. Drífu Hjartardóttur um Evrópusambandið og Vinstri græna, get svarað því á öðrum vettvangi. En mig langar til þess að svara hæstv. forseta vegna þess að við erum hér að ræða fundarstjórn forseta.

Hæstv. forseti segir að hún hafi ekki átt annan kost en að halda þessum fundum til streitu eins og raun ber vitni og láta okkur vinna óundirbúið á þessum föstudegi, sem er ekki, nota bene, vinnufundur á starfsáætlun þingsins. Þingmenn eru búnir að skipuleggja daginn með það fyrir augum að hér sé ekki þingfundur og búnir að bóka sig á fundi, ráðstefnur og málþing úti um allan bæ, m.a. málþing um vatnalög í Háskóla Íslands sem hefst kortér yfir tólf.

Hæstv. forseti segir að traustur og öruggur meiri hluti sé fyrir þessu máli og þau sjónarmið koma sömuleiðis fram í máli hv. þm. Drífu Hjartardóttur að hér eigi minni hlutinn bara að hafa sig hægan og vera ekki með þessa vitleysu, vera ekki að þessu málþófi eins og fólk kallar það. Ég spyr: Hefur hæstv. forseti kannað hvort það er traustur og öruggur meiri hluti fyrir málinu? Er það algjörlega ljóst að allt það sem við höfum fært fram í stjórnarandstöðunni í þessu máli hafi ekkert hreyft við fólki hér? Hefur hæstv. umhverfisráðherra ekki hugleitt þau mál sem við erum að bera hér fram?

Ég vil minna hæstv. umhverfisráðherra á það sem fært var hér fram í umræðuna fyrir ekki margt löngu um ummæli hæstv. iðnaðarráðherra í garð hæstv. umhverfisráðherra á fundi norður í landi. Hefur hæstv. umhverfisráðherra ekki séð ástæðu til þess að vera hér viðstaddur til þess að hlusta á þá málefnalegu umræðu sem hér hefur átt sér stað og vera hér til andsvara, koma hér í ræðustól að loknum ræðum þingmanna til þess að svara þeim spurningum sem hæstv. ráðherrar eru hér í orði kveðnu að láta eins og þeir vilji gera? Hvaða ráðherrar hafa verið viðstaddir þá umræðu sem hefur farið fram þann hluta 2. umr. sem er búinn? Engir, frú forseti. Ráðherrarnir hafa ekki verið til viðtals við minni hlutann í þessu máli í 2. umr. og það er sannleikur málsins og það er ámælisvert. Það er ástæða til þess að segja við þessa hæstv. ráðherra: Lýðræðið byggist á því að minni hlutinn geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri. En það er ekki nóg að við getum talað hér út í loftið tómt, við þurfum að fá díalóg við stjórnarþingmenn og ráðherrana um þau sjónarmið sem við færum fram, sem hafa verið fullkomlega málefnaleg. Það hefur ekki verið erfitt fyrir þessa hv. þingmenn að komast að því að hér hefur verið bil á milli allra ræðna, allir þingmenn hafa borið fram spurningar sem við þurfum að fá svör við.

Enn situr hæstv. umhverfisráðherra, þegir þunnu hljóði og svarar ekki þeim spurningum sem hafa verið lagðar fyrir hana beinlínis hér á þessum morgni undir liðnum um störf þingsins og undir liðnum um fundarstjórn forseta. Er nema von að við séum — við reynum að vera seinþreytt til vandræða, minni hlutinn — orðin nokkuð langeyg eftir svörum við þessum meiri háttar spurningum, þessum stóru spurningum sem við höfum fært hér fram? Málið er afgreitt í friði úr út nefndinni, segja hv. stjórnarþingmenn og hæstv. forseti. Það er málum blandið. (Forseti hringir.) Það var ekki afgreitt með meiri friði en svo að vitað var að þessi umræða yrði löng og alvarleg.