132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[10:53]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að ræða um fundarstjórn forseta vegna þess að ég tel að nákvæmlega ekki neitt sé bogið við hana ólíkt því sem hv. þm. Jóni Bjarnasyni finnst, sem kvartar mjög yfir því að þurfa að vera hér við vinnu sína á föstudegi. Hann verður að eiga það við sig. Ég tel ekkert óeðlilegt við það að við ræðum þetta mál og að við höldum áfram að ræða málið í dag og í kvöld og á laugardaginn og þess vegna á sunnudaginn ef þess þarf með.

Frumvarp það sem lagt hefur verið fram til vatnalaga er fullburða og er hægt að ræða eitt og sér. Vatnatilskipun Evrópusambandsins breytir engu þar um, frú forseti.

Ég vil líka segja að mér hefur þótt dálítið kyndugt að sjá fulltrúa stjórnarandstöðunnar koma hingað upp í ræðustól Alþingis og láta eins og þeir séu hvítþvegnir englar og tala fyrir því að það sé einhver sáttatónn, hugsanlega sé hægt að ná einhverjum sáttum í málinu með því að fresta því. Auðvitað er það ekki svo.

Ég minnist þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sagði í fjölmiðlum að það væri krafa stjórnarandstöðunnar að fá þessu máli vísað frá, koma því út úr þinghúsinu. Menn eru ekki að tala um að fresta málinu til að reyna að ná einhverjum sáttum. Það er engin sátt í spilunum, a.m.k. ekki hjá stjórnarandstöðunni. Ég held að hæstv. forseti hafi lýst því hvernig samskipti hennar við hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni hafa verið og þau voru ekki beinlínis til þess fallin að ná fram sátt.

Ég held að hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni ættu að fagna því að málið verði rætt. Nú ræðum við málið áfram, það hefur verið gert núna í um það bil 20 tíma. Stjórnarandstöðunni liggur mikið á hjarta og ég held að ein besta sönnun þess hafi verið ræða hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar sem gersamlega hrökk af hjörunum í ræðustól Alþingis áðan og nánast sprakk í loft upp. Ég held að hann ætti að fagna því að fá að ræða þetta mál frekar. Ég veit að þingmenn bæði stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar hlakka til að fylgjast áfram með umræðunum. Margir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa eytt löngu máli í að flytja ræður annarra, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson þegar hann flutti ræðu Bryndísar Hlöðversdóttur sem farin er af þingi. Það sama má segja um hv. þm. Ögmund Jónasson sem flutti ræðu Ragnars Arnalds þegar hann fékk tækifæri til að ræða málið. Þjóðin bíður öll eftir því að fá að heyra efnislegt innlegg þessara þingmanna í þessu vatnamáli. Ég hlakka mikið til að fá að heyra hvað þeir sjálfir hafa að segja um þetta mál. Ég mun gera það í dag og á morgun og vonandi næstu daga.

Frú forseti. Ég fagna því að við fáum tækifæri til að halda áfram að ræða þetta mál á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu verður ...)