132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:20]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að það á að vera meira en sjálfsagt að hæstv. ráðherrar, bæði iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra séu viðstaddir þessar umræður. Mér var ekki kunnugt um að hæstv. iðnaðarráðherra hefði boðað lögmæt forföll þegar ég sá á bak henni hér úr þinghúsinu fyrir rúmum hálftíma eða svo.

En ég kveð mér hér hljóðs til að vekja athygli hv. þingmanna meiri hlutans á því að lýðræðið er ekki skömmtunarkerfi þar sem meiri hlutinn skammtar minni hlutanum gæði, svigrúm og völd. Ef hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins halda það, þá er verr komið fyrir lýðræðinu á Íslandi en mig hafði grunað. Það er með hreinum ólíkindum að menn skuli koma hér upp og tala um að minni hlutinn fái nú að tala. Minni hlutinn megi hafa rangt fyrir sér. Minni hlutinn si og svo, frú forseti.

Það vill þannig til að við störfum eftir lögum sem heita þingsköp. Á meðan þeim hefur ekki verið breytt þá gilda þau lög hér um umræður á Alþingi að við 2. umr. er ræðutíminn ótakmarkaður. Það má vel vera að hæstv. forseta finnist það við hæfi að lesa hér upp hversu lengi hefur verið talað í tilteknum umræðum. Það er kannski ágætt að halda því til haga. Ég held hins vegar að þeir sem hér hafa verið við 2. umr. þessa máls viti fullvel hverjir hafa talað og um hvað. Og hafi þá kannski einhvern skilning á efni málsins.

En það er einfaldlega þannig að þetta eru reglurnar sem við störfum eftir og þeim hefur ekki verið breytt. En sé vilji til að breyta þeim þá þarf auðvitað að tala um það hér og ná um það samkomulagi, væntanlega.

Lýðræði þýðir ekki að minni hlutinn hafi engin völd. Ef það þýðir það þá er meiri hlutinn alráður. Þá getur meiri hlutinn hér á hinu háa Alþingi farið að kenna sig við alræði sem ríkir annars staðar í heiminum, í öðrum ríkjum. Og er væntanlega fullsæmdur af því. Lýðræðið á að tryggja að allar skoðanir komi fram. Það á að tryggja að tekið sé tillit til mismunandi skoðana og þær fái það vægi í umræðunni sem þær eiga að fá. Síðan þegar kemur að afgreiðslu málsins, þegar búið er að fara að þingsköpum og þeim lögum og reglum sem hér gilda þá kemur í ljós hvar málið liggur og hvernig það liggur eftir (Forseti hringir.) umræðuna.