132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:30]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það er merkilegt að í þessum umræðum er alltaf annað slagið tekið fram að hér skuli rætt um fundarstjórn forseta en síðan fara þingmenn stjórnarflokkanna út um víðan völl, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði hér í ræðu sinni. Reyndar stóð hún ekki nema rétt rúmar þrjár mínútur. En það var greinilegt af þeirri ræðu að hv. þingmaður hefur ekki verið viðstaddur umræðurnar fram að þessu. Við höfum einmitt farið um það mörgum orðum og gert ítarlega grein fyrir afstöðu okkar í þessu máli. Ég gerði það í fyrri ræðu minni en verð greinilega að gera það aftur og vona þá að hv. þingmaður, þótt hann verði ekki viðstaddur, leggi a.m.k. við hlustir. Það hlýtur að vera það minnsta sem maður fer fram á.

Frú forseti. Ég ætlaði alls ekki að ræða þetta. Ég ætlaði að ræða fundarstjórn forseta. Þannig er það að hæstv. forseti þingsins er forseti alls þingsins, ekki bara forseti stjórnarflokkanna, eins og hefur mátt greina hér í umræðum frá einstaka þingmönnum Sjálfstæðisflokks sérstaklega, einnig Framsóknarflokks. Víða í þjóðþingum, t.d. annars staðar á Norðurlöndunum, er það þannig að forseti þingsins getur alveg eins komið úr hópi stjórnarandstöðunnar. Hlutverk forseta í þinginu er að gæta hlutleysis, miðla málum og gæta þess að þingsköp séu í heiðri höfð. Hins vegar hafa einstaka þingmenn hér í dag hótað kvöldfundum endalaust, helgarfundum, og reynt að læða því að hjá þjóðinni að þetta þing geri ekkert annað og hafi ekkert betra að gera en að vera hér á föstudegi, það sé nú það minnsta, að mönnum sé ekki vorkunn að vinna vinnuna sína á föstudegi. Talandi um virðingu þingsins, frú forseti, veit t.d. hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ekki að þingmenn hafa auðvitað mörgum öðrum störfum að gegna? Þessi föstudagur var ekki ætlaður í þingfundi. Menn eru búnir að bóka sig úti um allt á öðrum fundum.

Hæstv. forseti segir að þessir þingfundir hafi forgang og eigi að vera í fyrirrúmi. Þess vegna spyr ég mig: Hvar eru ráðherrarnir? Það er t.d. enginn ráðherra viðstaddur þessar umræður núna, (Forseti hringir.) herra forseti.