132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:33]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem hér hefur verið sagt, það frumvarp sem hér er til umræðu og á að fara að taka á dagskrá aftur lýtur að einkavæðingu á auðlindinni vatni. (Gripið fram í.) Það er alveg hárrétt. Um það eru mjög skiptar skoðanir, þ.e. um einkavæðingu á auðlindinni vatni. Hæstv. forseti fann að því þegar ég sagði að gjörðir iðnaðarráðherra væru kannski ein mesta náttúruvá sem núna blasir við þjóðinni. Ég er þeirrar skoðunar að frumvörpin sem koma nú frá iðnaðarráðherra, og gjörðir hvað þau varða, séu það.

Ég vil minna á einkavæðinguna á vatninu. Ég vil minna á stóriðjustefnuna. Ég vil minna á stóru vatnsaflsvirkjanirnar úti um allt land sem eru gríðarleg náttúruvá. Því skal til haga haldið hér.

Varðandi fundarstjórn forseta hef ég ekki margt við hana að athuga almennt. Í dag var þó ekki gert ráð fyrir þingfundi. Við þingmenn höfum störfum að gegna sem þingmenn, vítt og breitt um landið, t.d. úti í kjördæmunum. Ég var búinn að ráðstafa mér þar í dag. Ég tel ekki maklegt, þó að einstakir þingmenn hafi vitnað til þess og sagt að menn ættu að sinna vinnuskyldunni og vera hér í þinginu, að bera mér á brýn vinnuleti. Ég veit ekki betur en — ég ætla ekki að fara að setja út á aðra þingmenn en ég tel mig sinna mjög vel þingskyldum, eins og ég mögulega get, í þinginu og mun ekki taka við ákúrum af þessu tagi.

Varðandi síðan þetta mál er það svo að það eru fleiri en við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem teljum að stöðva eigi þetta mál, að það sé náttúruvá. Þetta er vá fyrir framtíðina ef á að fara að einkavæða vatnsauðlindina. Meðal annars segir í forustugrein í Morgunblaðinu 1. nóvember, til upplýsingar fyrir sjálfstæðismenn, með leyfi forseta:

„En það hlýtur einnig að vera mikið álitamál hvort hægt sé að einkavæða auðlind á borð við vatn og má yfirfæra þá umræðu yfir á umræðuna um auðlindir hafsins og spyrja hvort ekki sé rétt að líta á vatn sem þjóðareign. Nú stendur yfir nefndastarf um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rétt er að við þá endurskoðun verði áskorunin, sem kemur fram í yfirlýsingu félagasamtakanna fyrir helgi um vatn fyrir alla, tekin til alvarlegrar skoðunar.“

Er ekki (Forseti hringir.) rétt að þetta mál sé tekið þar inn? Ég er þeirrar skoðunar líka, herra forseti.