132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:40]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er hart deilt á hæstv. forseta og fundarstjórn hans hér í ræðupúlti á hv. Alþingi og hefur reyndar verið gert áður í þessari viku. Hafa orð eins og ofbeldi hæstv. forseta heyrst í þeim efnum sem ég tek að sjálfsögðu ekki undir. Ég fagna því að hæstv. forseti vilji greiða fyrir þeirri umræðu sem hér hefur farið fram. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa haldið hér fimm tíma langar ræður sem dæmi og þriggja tíma langar ræður. (ÖS: Hér er um ofurafl að ræða.) Hér kemur frammíkall frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem er ekki skemmt hér yfir framgangi mála enda er Samfylkingin og stjórnarandstaðan í miklum vandræðum með málið. Það einkenndist kannski í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar hér áðan þar sem hann talaði í 100. skipti um einkavæðingu vatnsins. Um einkavæðingu vatnsins. (Gripið fram í.) Ég vil spyrja, hæstv. forseti: Hvar hefur hv. þm. Jón Bjarnason verið frá árinu 1923? Þá voru sett lög hér á Alþingi, svokölluð vatnalög, og dómafordæmi frá árinu 1923 hafa verið á þá leið að eignarréttur landeigenda hefur verið geirnegldur í bak og fyrir. Það er ósköp eðlilegt að við spyrjum hér: Hvar hefur hv. þm. Jón Bjarnason verið frá árinu 1923?

Hefur hv. þingmaður ekki kynnt sér þá dómaframkvæmd og þau álit sem allir helstu sérfræðingar á sviði eignarréttar á 20. öldinni hafa haft á þessu máli? Hér er um formbreytingu að ræða, ekki efnisbreytingu. Öll stjórnarandstaðan er sameinuð gegn prófessorum við Háskóla Íslands sem hafa sérhæft sig hvað mest í einkaeignarrétti.

Hæstv. forseti. Ég vil hér út af umræðum um störf nefndarinnar taka fram að engin beiðni kom um að kalla fyrir fleiri gesti á fundi nefndarinnar. Málið var afgreitt í friði og sátt með þeim hætti. Hins vegar var það ljóst í nefndarstarfinu að menn væru ekki á eitt sáttir. Sumir vilja fara leið Vinstri grænna og taka þessi réttindi af landeigendum. Satt best að segja veit ég ekki, hæstv. forseti, hvar Samfylkingin er stödd á þeirri vegferð, hvort hún fylgi Vinstri grænum í þessu.

En ég legg til í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram — hér er greinilega búið að mynda kosningabandalag Vinstri grænna og Samfylkingar þar sem Vinstri grænir hafa forustu og Samfylkingin druslast á eftir — ég beini því til hv. þingmanna þessara flokka (Gripið fram í.) að forsætisráðherraefni þessa bandalags verði úr röðum Vinstri grænna (Gripið fram í.) og mér finnst Jón Bjarnason koma vel til greina í það hlutverk. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)