132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:47]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig þyrstir, það er best að fá sér vatn. Á meðan það er enn þá í almannaeigu og ókeypis er rétt að njóta þess.

Virðulegi forseti. Ég kem hér öðru sinni til að ræða um fundarstjórn forseta vegna þess að ég kom ekki að í fyrra máli mínu andmælum okkar í þingflokki Frjálslynda flokksins við því að boðað yrði til þingfundar í dag, á föstudegi. Sá fundur var ekki á dagskrá. Við vorum allir þrír, þingmenn Frjálslynda flokksins, búnir að ráðstafa tíma okkar. Formaður flokksins hefur t.d. ekki getað verið viðstaddur hér í morgun af þeirri einföldu ástæðu að borgarstjórnarframboð Frjálslynda flokksins tilkynnti um framboð sitt á blaðamannafundi sem haldinn var hér í Reykjavík klukkan tíu í morgun og kynnti um leið efstu frambjóðendur á lista. Ég vil bara að þetta komi fram því að ég býst við að ýmsir spyrji sig þeirrar spurningar hvar formaður Frjálslynda flokksins sé nú. Hann er að sjálfsögðu væntanlegur hingað seinna í dag ef hæstv. forseti vill ekki verða við þeirri tillögu minni að þingfundi verði frestað þegar við höfum lokið umræðum um fundarstjórn forseta.

Ég lauk máli mínu áðan með því að mælast til þess að hæstv. forsætisráðherra yrði boðaður hingað til þingfundar ef þingfundur héldi áfram og ég stend enn fast við þá ósk mína. Ég tel mjög mikilvægt að hann komi hingað og útskýri það fyrir þingheimi hvers vegna svo mikið liggur á að þetta frumvarp verði að lögum. Þó að þetta frumvarp um eignarrétt á vatni heyri ekki undir hans ráðuneyti beinlínis þá er hann forsætisráðherra, hann fer fyrir ríkisstjórninni. Eins og ég sagði áðan tel ég að það væri miklu betra ef málinu yrði slegið á frest og það kæmi svo endurskoðað til þingsins næsta haust.

Ég vil svo minna á að önnur verkefni, sem við getum farið að snúa okkur að, eru ærin. Hér er til að mynda búið að dreifa einum fimm frumvörpum frá hæstv. landbúnaðarráðherra, frumvarpi um Veiðimálastofnun, vernd gegn fisksjúkdómum, um fiskrækt og eldi vatnafiska og síðan nýju frumvarpi um lax- og silungsveiði sem er hvorki meira né minna en 200 blaðsíður með fylgiskjölum. Þetta eru verkefnin sem bíða okkar hér í þinginu og okkur væri nær að fara að vinna að þessum lagasetningum en hætta að reyna að bera fram hér handónýtt frumvarp um eignarrétt á vatni.