132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:50]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tek undir þau orð forseta og nokkurra þingmanna að menn eigi að spara sér stóryrði í umræðunni. Það á auðvitað ekki að tala um valdníðslu forseta nema rökstyðja það vel. Það á heldur ekki að tala um ofbeldi hjá þingmönnum sem gera það eitt að fara að þingskapalögum. Það er rétt hjá forseta, sem var reyndar annar en sá sem nú situr, að vísa til 63. gr. um að hann hefur fullan rétt til þess að ákveða dagskrá hvers fundar og breyta röðinni á málum, taka mál út af dagskrá o.s.frv. Hann getur boðað til fundar hvenær sem hann vill, þannig eru þingsköpin. Forseti minntist hins vegar ekki á að til er önnur grein í lögunum, sem er 55. gr., sem kveður á um ræðutíma við umræður um frumvörp, og öllum þingmönnum er rétt að tala tvisvar sinnum í 2. umr. um lagafrumvarp, það hygg ég að forseti geti staðfest hér á eftir, og sá ræðutími er ekki takmarkaður með neinum hætti. Þessar greinar kunna að vega nokkuð hvor á móti annarri og það er auðvitað æskilegast að forseti stjórni þinginu þannig að hvorugur beiti um of sínum rétti heldur fari þingstörfin fram með sæmilegum og ánægjulegum hætti.

Af því að forseti, sá sem úr stól er genginn, var með tölulegt yfirlit eins konar og nánast einkunnir um frammistöðu manna í þessari 2. umr. þá væri auðvitað rétt að forseti liti líka á það og gæfi okkur tölulegt yfirlit yfir það hvernig þingstörf hafa gengið hér í vetur. Ég hygg að forseti hafi yfir engu að kvarta um þau hvað stjórnarandstöðuna varðar. Það er frekar að forustumenn hennar hafi verið gagnrýndir fyrir að vera leiðitamir og eftirlátir forseta í því að hér hafa verið fjöldamargir fundir á dögum sem ekki eru venjulegir þingfundardagar. Hér hefur verið talað fram á kvöld þegar forseti hefur viljað. Starfsáætlun hefur verið breytt vegna þess að hann hefur með einhverjum hætti talið það vera hagsmuni sína og ríkisstjórnarinnar eins og hv. þm. Kristján Möller rakti hér áðan. Það hefur verið breytt til innan viku og forustumenn stjórnarandstöðunnar samþykkt það þannig að hann hefur yfir engu að kvarta í þessu efni og ég óska þess við forseta að hann staðfesti það með svipuðu tölulegu yfirliti og hann þuldi hér áðan um þátttöku í þessari umræðu.

Það hefur hins vegar gerst að komið hefur fram nýr flötur á málinu sem gæti orðið til sátta við meðferð þess. Það er það sem forseti á að hyggja að núna þannig að (Forseti hringir.) ég ljúki máli mínu eins og ég hóf það, með því að ræða um fundarstjórn forseta.