132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:59]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, hóf umræðuna hér fyrir nákvæmlega tveimur klukkustundum, klukkan er núna á slaginu tólf, með því að rétta fram sáttarhönd að stjórnarliðinu. Hann bauð upp á hugsanlegar sættir í málinu, í það minnsta að málinu yrði frestað þar til hægt yrði að ræða vatnsvernd og vatnsnýtingu samhliða — það mál er tilbúið hjá hæstv. umhverfisráðherra og á að geta komið fram. Því miður var þessu í engu svarað og því hefur umræðan haldið áfram með þeim hætti sem hér hefur verið. Sérstaklega hefur verið, virðulegi forseti, og ég vildi taka það upp við þig, rætt með mjög neikvæðum og undarlegum hætti um rétt stjórnarandstöðunnar til að ræða í ótakmarkaðan tíma stórmál sem hún telur að ræða þurfi, svokallað málþóf. Eins og hæstv. forseti veit, þar sem hann fékk sína eldskírn sem forseti þingsins á sínum tíma í fjölmiðlalögunum svokölluðu, skilaði það málþóf, sá lýðræðislegi réttur Alþingis að ræða málin þar til þingmenn sjálfir telja þau útrædd, okkur því einfaldlega að hin hörmulegu og meingölluðu og sértæku fjölmiðlalög, sem átti að setja hér á Íslandi til að knésetja eitt sérstakt fjölmiðlaveldi eða fyrirtækjasamsteypu, voru aldrei sett. Það lagafrumvarp var vont af því að það var sértækt. Á sínum tíma skiluðu þær löngu umræður okkur því þannig að það skal tala af virðingu og hófsemi um þann rétt sem við höfum til að ræða málin eins ítarlega og lengi og okkur finnst við þurfa.

Hitt sem ég vildi taka upp sérstaklega við hæstv. forseta, og náði ekki að gera hér áðan í umræðunum um fundarstjórn forseta, voru upphrópanir hv. starfandi þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins um að stjórnarandstaðan beitti kúgun, ofbeldi og einhvers konar andlýðræðislegri framgöngu, hann notaði sérstaklega orðin kúgun og ofbeldi. Ég vil spyrja virðulegan forseta hvort hann sjái ekki ástæðu til að gera athugasemd við þessi ummæli hv. þingmanns. Mér þóttu þau ósmekkleg, ósæmileg og sóðaleg í öllu tilliti. Því vildi ég beina því til hæstv. forseta hvort hann sjái ekki ástæðu til að finna að því við hv. þingmann eða hreinlega víta hann fyrir ummælin, svo ósmekkleg voru þau.

(Forseti (BÁ): Forseti var nú ekki í forsetastól þegar þessi ummæli féllu en hefði ekki vítt hv. þingmann fyrir það frekar en aðra þingmenn sem hafa notað svo litskrúðugt orðalag um deilur manna hér í þinginu. Ummæli af þessu tagi má finna í röðum allra þingflokka. Forseti hefur ekki gert athugasemdir við það og hvað þá vítt.)

Ég harma þau viðbrögð virðulegs forseta að hann ætli ekki að víta hv. starfandi formann þingflokks sjálfstæðismanna, Guðlaug Þór Þórðarson, sem gekk hér fram með fráleitum hætti, með miklum stóryrðum og upphrópunum. Hann notaði orð eins og kúgun og ofbeldi, sem eru jafnfáránleg og orð hv. formanns iðnaðarnefndar þegar hann brigslaði mönnum um kommúnisma, það er rétt eins og ég mundi brigsla honum um fasisma. (Forseti hringir.) Mér finnst að hæstv. forseti eigi að finna að við þessa hv. þingmenn báða, Birki Jón Jónsson og Guðlaug Þór Þórðarson, (Forseti hringir.) sem hér hafa gengið fram með skætingi og stóryrðum, brigslað mönnum um kúgun (Forseti hringir.) ofbeldi og kommúnisma og það á hæstv. forseti ekki að líða.

(Forseti (BÁ): Forseti verður jafnan að meta það hverju sinni hvaða ummæli gerðar eru athugasemdir við og hvað þá vítt fyrir, sem er alvarlegasta athugasemd sem forseti getur gefið vegna ummæla þingmanna í ræðustól. Það er háð mati hverju sinni.)