132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[12:07]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að gera athugasemd við fundarstjórn herra forseta. Gerðar voru athugasemdir við orð mín hér, að ég hefði að einhverju leyti talað óvarlega. Mér finnst það ekki fyllilega sanngjarnt að við í stjórnarandstöðu fáum ekki sambærilega meðferð og stjórnarliðar. Ég notaði hér það orðalag, og ég býst við að það hafi farið fyrir brjóstið á hæstv. forseta, að hæstv. forsætisráðherra hefði sölsað undir sig ríkiseigur. Það má vera að ég hafi gengið eilítið of langt. Ég er þó ekki sannfærður um það, sérstaklega ekki ef ég ber þau orð saman við það sem stjórnarliðar hafa brigslað okkur í stjórnarandstöðunni um. Þeir hafa brigslað okkur um kúgun og ofbeldi. Það er deginum ljósara að okkar ágæti hæstv. forsætisráðherra hefur stuðlað að sölu ríkiseigna með þeim hætti að það er mjög umdeilanlegt. Ekki einungis við í stjórnarandstöðunni höfum farið í sérstaka athugun á því, það er meira að segja enn verið að skoða þau mál. Það hafa t.d. komið upp mál sem varða söluna á Búnaðarbankanum. Þrátt fyrir að ríkisendurskoðandi hafi farið einu sinni yfir það mál hafa komið upp tilefni til að hann fari enn og aftur yfir það, og hann er kominn með ný gögn í hendurnar. Ég get því ekki fyllilega fallist á þessa athugasemd þó að ég hafi tekið svona til orða — að sölsa undir sig er að komast yfir eins og það er skýrt í orðabókum. Hann komst yfir ríkiseignir og það eru bara staðreyndir sem ekki er hægt að komast hjá að ræða.

Við vitum um fleiri dæmi, sem eru mjög umdeilanleg, síðan okkar ágæti hæstv. forsætisráðherra var hæstv. utanríkisráðherra, þegar Íslenskir aðalverktakar voru seldir. Þá var hér til umræðu í þinginu síðastliðinn miðvikudag í fyrirspurnatíma — þá komu upp álitaefni sem voru kærð til Fjármálaeftirlitsins. Þegar sá sem hér stendur vildi fá að vita hverjar lyktir þess máls hefðu orðið fengust engin svör.

Ég er á því að þetta sé eitthvað sem við verðum að fara yfir hér í þinginu. Við eigum að tala tæpitungulaust. Það á að tala um hlutina eins og þeir eru, þarna er verið að selja eigur þjóðarinnar. Það er ef til vill rétt metið hjá hæstv. forseta að við eigum kannski ekki að vera stóryrt en það á að fara gaumgæfilega yfir þessi mál, herra forseti.