132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[12:10]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað? Þessi orð skáldsins komu mér í hug þegar ég hlýddi á svar hæstv. forseta áðan. Hæstv. forseti er þeirrar skoðunar að þingmönnum sé frjálst að velja litskrúðugt orðaval. Ég er sammála hæstv. forseta. Ég er ekki haldinn neinni sérstakri refsigleði. Ég vil ekki að menn séu dregnir hér sérstaklega til ávítunar fyrir óvarlegt orðalag.

En ég velti því fyrir mér hvort það hafi flögrað að hæstv. forseta að það kunni stundum að vera gerður mannamunur í þeim efnum. Er t.d. einhver munur á því að segja um tiltekinn verknað ríkisstjórnarinnar, eins og Íraksstríðið, að hann sé siðlaus eða hinu að segja, eins og hv. þingmenn gerðu hér í dag, að framferði stjórnarandstöðunnar sé kúgun og ofbeldi? Í fyrra tilvikinu gall bjalla forseta við og að minnsta kosti var skotið viðvörunarskoti en í síðara tilvikinu var látið kyrrt liggja.

Er einhver munur á því að tala um að innrásin í Írak og atbeini íslenskra stjórnvalda hafi verið siðlaus eða hinu sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson sagði hér áðan, að tiltekinn hæstv. ráðherra hefði sölsað undir sig eignir ríkisins og var átölulaust látið. Án þess að ég vilji túlka það svo að í því hafi falist viðurkenning á verknaðinum af hálfu hæstv. forseta.

Herra forseti. Ég vil hins vegar gera athugasemdir við það hvernig þinginu er stjórnað á fundum hér. Í upphafi þessa þings ræddi forseti þingsins, hæstv. Sólveig Pétursdóttir, sérstaklega um að nú yrðu breytt vinnubrögð. Tekið yrði tillit til þess að sumir þingmenn – eins og ég og hv. þm. Hlynur Hallsson og þeir ágætu þingmenn sem standa hér í gættinni, hv. þingmenn Helgi Hjörvar og Björgvin Sigurðsson — ættu ung börn. Þurfum við ekki líka að fá frelsi til að sinna þeim? Höfum við ekki líka skyldur gagnvart þeim? Ég mundi ekki tala svona nema vegna þess að það voru gefin fyrirheit af hálfu hæstv. forseta.

En eftir þessa viku, þar sem hringlað hefur verið fram og til baka með starfsáætlun þingsins, verð ég að segja að ég man ekki eftir forseta sem hefur af jafnmikilli ónærgætni komið fram við fjölskyldufólk í þinginu eins og hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir. Þetta hlýt ég að segja eftir að það liggur fyrir að hér er mál sem engin nauður rekur til lykta en hæstv. forseti setur hér á kvöldfundi án þess að gert hafi verið ráð fyrir því í skipulagi. Setur á fund á föstudegi þegar þingmenn hafa ráðstafað tíma sínum með öðrum hætti — ég hafði t.d. boðað fjölda manns til fundar milli 2 og 3 af því að í starfsáætlun var gert ráð fyrir að ég gæti það.

Síðan liggur fyrir hótun um ofbeldi af hálfu hæstv. forseta Sólveigar Pétursdóttur, sem felst í því að halda fund á morgun þegar fjölskyldufólk hefur einfaldlega öðrum skyldum að gegna.

Ég geri athugasemd við þetta og ég vona að hæstv. forseti virði mér það til vorkunnar þó ég noti litskrúðugt orðalag.