132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[12:14]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil bara koma hér upp og lýsa því yfir að ég hef engar athugasemdir við fundarstjórn forseta. Ég hef áður farið yfir það á þessum morgni. (Gripið fram í: Hvað ertu þá að gera upp?)

Ég sé mig hins vegar knúinn til — ef ég fæ frið, virðulegi forseti, fyrir frammíköllum — að koma hér upp og gera athugasemdir við ræðu hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, sem enn og aftur gerir sér far um að rægja hæstv. forsætisráðherra persónulega. Hann kemur hér með aðdróttanir um ósæmilegt athæfi af hans hálfu. Það eru dylgjur sem styðjast ekki við rök. Ég hvet hv. þingmann til að láta af þessum hætti.

Ég vil einnig koma inn á það sem kom fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur hér fyrr í morgun. Hún hélt því fram að hæstv. iðnaðarráðherra hefði firrt sig ábyrgð á því að ræða hér um og svara fyrir tiltekið mál, EES-mál. Ég vil benda á, og hæstv. ráðherra benti á það líka, að þetta mál fellur ekki undir hennar verksvið. Það er annar hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni sem hefur annað ráðuneyti og þetta mál fellur undir hennar verksvið. Þannig að þetta orðaval, að hæstv. iðnaðarráðherra hafi firrt sig ábyrgð á þessu máli, er bara ekki rétt. Ég hélt að hv. þingmaður og aðrir þekktu hvernig ráðherrar ríkisstjórnarinnar skipta með sér verkum svo þetta kemur mjög á óvart.