132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[12:16]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Já, það er nú akkúrat það sem ég ætla að ræða við hæstv. forseta, hvernig hann ætlar að haga þessum fundi hér í dag. Eftir því sem ég best veit, og ég vona að hæstv. forseti viti það einnig, þá er árshátíð starfsmanna þingsins í kvöld. Ég held að það hafi verið venja hér að taka tillit til starfsmanna þingsins. Ég spyr því hversu lengi forseti hyggist halda þessum fundi fram í dag. Frá því að ég kom inn á þing, eftir því sem ég man til, held ég að aðeins einu sinni hafi verið fundað hér til klukkan tvö eða þrjú á degi þegar staðið hefur til að þingmenn eða starfsmenn þingsins haldi sína árshátíð. Það hefur ekki verið venja að halda hér fram kvöldfundum, hvað þá heldur að boða til fundar á laugardögum eftir slíkar samkomur.

Ég vildi vekja athygli á þessu, þetta snýr að fundarstjórninni og þeirri vinnu sem fyrirhuguð er í dag. Það er auðvitað búið að ræða hér oft og mikið um það hvernig starfsáætlun þingsins hafi verið í þessari viku og við vitum það. Ef ég hef tekið rétt eftir í morgun þá lýsti 1. forseti Alþingis því yfir að hér yrði unnið fram á kvöld. Ég verð að segja að ég er afar undrandi ef þannig á að standa að verki ofan á það sem á undan er gengið í þessari viku. Ég hygg að málum muni ekki þoka mikið fram í umræðum um efni málsins ef standa á að verki eins og verið hefur. Ég hygg að hæstv. forseti hljóti að hafa séð það hér í morgun að það gengur ákaflega hægt að þoka umræðunni fram á við ef það er gert í algjöru ósætti við stjórnarandstöðuna, eins og vinnulagið hefur reyndar verið.

Ég mælist því til þess að hæstv. forseti, sem nú situr á forsetastóli, geri hlé á þessum fundi og það verði rætt hvernig þinghaldið á að fara fram í dag og hversu lengi það eigi að standa. Ég get ekki séð að það verði neitt framhald á þessum fundi annað en það að við munum halda áfram að gera athugasemdir við vinnulagið hér í hv. Alþingi. Það getur ekki verið sú verkstjórn sem forseti vill leiða fram.