132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[12:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og mælast til þess að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að þessum fundi ljúki þegar í stað, í það minnsta verði gert á honum hlé og menn ræði málin. Þingfundurinn er haldinn þvert á vilja stjórnarandstöðunnar og reyndar gegn mjög eindregnum mótmælum hennar. Þau mótmæli komu fram í gær þegar ákveðið var að boða til fundarins. Stjórnarandstaðan vill að við höldum okkur við starfsáætlun þingsins. Það var ekki gert ráð fyrir þingfundi í dag, hvað þá á morgun. Þetta kom einnig fram í upphafi vikunnar þegar vinnuáætlun var lögð fyrir þingflokksformenn.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að samkvæmt þingskapalögum er það á valdi hæstv. forseta þingsins að ákveða um þinghaldið. Engu að síður vil ég ítreka, og aftur taka undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, að þingið verður ekki rekið í ósætti við stjórnarandstöðuna. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni sem setur þinghaldið í fullkomið uppnám með óbilgirni sinni.