132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[12:25]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kom hér með málefnalegar ábendingar til hæstv. forseta um það hvernig yrði staðið að þinghaldinu fram eftir degi. Ég sakna þess að hafa ekki fengið nein svör um það, önnur en þau að fundi verði fram haldið eins og þörf verður á fram eftir deginum. Það er heldur ekki orðið við þeim sjálfsögðu tilmælum mínum að fundi verði frestað og málið rætt. Nú er búið að halda fund í þinghúsinu í tvo og hálfan klukkutíma án þess að nokkuð hafi þokast í málinu frá því að við skildum við það í gær. Ég furða mig á því að hæstv. forseti skuli ekki vilja taka í neinu þeim tilmælum mínum að gert verði hlé á þessum fundi og menn ræði saman um það hvernig standa eigi að þessu þinghaldi.

Ég held að minni mitt bresti ekki þegar ég segi að einu sinni hafi verið haldinn hér fundur rétt fram yfir klukkan tvö á degi þegar starfsmenn þingsins hafa ætlað að halda árshátíð. Þess vegna spyr ég: Stendur til að breyta út af þeirri venju að þegar starfsmenn þingsins eða alþingismenn halda sína árshátíð sé hlé gert á störfum þingsins? Fólk sem hér starfar og vinnur undir þeirri verkstjórn sem hefur verið kvöld eftir kvöld þarf, eins og starfsmenn annarra vinnustaða, að geta gert ráð fyrir frítíma þegar árshátíð er haldin. Í mörgum fyrirtækjum er það boðað með sérstakri tilkynningu að fyrirtæki séu lokuð í þrjá daga, frá föstudegi og fram að hádegi á mánudag, þegar menn halda árshátíðir starfsmanna. Það hefur nú ekki verið venjan hér, en ég minnist þess aldrei að það hafi verið haldinn þingfundur eftir árshátíð alþingismanna eða starfsmanna. Ég tel að við þingmenn eigum rétt á því að fara að fá svör um það hvernig eigi að haga vinnunni hér í dag. Ég fer vinsamlega fram á það við hæstv. forseta að hann gefi ráðrúm til þess að þingflokksformenn fái að ræða við forseta þingsins um framhaldið á þessum degi.