132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:06]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum um vatnalög, stjórnarfrumvarp, mál 268 en við ræðum líka nefndarálit á þskj. 281. Við ræðum hér um tillögur meiri og minni hluta og það er aðalatriði þessarar umræðu. Þess vegna hnaut ég um það sem hv. þingmaður sagði. Hann krafðist þess að hæstv. ráðherra væri viðstödd umræðuna. Málið er ekki lengur á forræði ráðherra. Hann flutti framsöguræðu um málið við 1. umr. og þá gátu menn spurt hana allra spurninga. Nú er málið á forræði nefndarinnar, hún flytur meirihluta- og minnihlutaálit og ég vil ekki gera svo lítið úr þeim þingmönnum sem undirrita það nefndarálit að þeir séu ekki menn til að svara fyrir það. Mér finnst hv. þingmaður gera of lítið úr löggjafarsamkundunni og gera of mikið úr framkvæmdarvaldinu með því að kalla ráðherra til ábyrgðar og svara í þessu máli, sem er komið úr höndum hæstv. ráðherra í hendur Alþingis.

Svo vil ég gera athugasemd við það sem hv. þingmaður kallar aukafund Alþingis. Ég veit ekki betur en þessi fundur sé venjulega boðaður, venjulegur fundur á föstudegi. Mér finnst sjálfsagt að ræða þetta mál í hörgul.

Hv. þingmaður sagði að stjórnarmeirihlutinn ætti að hlusta á málefnaleg rök stjórnarandstæðinga. Ég er hjartanlega sammála því en til þess þarf maður að vita hvenær ræður eru búnar. Maður þarf að vita hvenær maður á að koma inn í umræðuna. Ég bað um andsvar í von um að ræðu þingmanns lyki innan fimm tíma. Ég vissi ekki hvort henni mundi ljúka eftir fimm tíma eða fimm mínútur. Henni lauk eftir rúman hálftíma. En ég skora á hv. þingmenn sem tala á eftir að tilkynna í byrjun ræðunnar hve lengi þeir muni tala svo hægt sé fara í málefnalega umræðu.