132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:10]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að ræða nefndarálit meiri hlutans, sem undirritað er af hv. þm. Birki J. Jónssyni, Kjartani Ólafssyni, Einari Oddi Kristjánssyni, Sigurði Kára Kristjánssyni og Gunnari Örlygssyni. Við ræðum jafnframt nefndarálit minni hlutans sem undirritað er af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og Helga Hjörvar. Ég tel að þessir menn hafi unnið ágætis starf. Ég vona það a.m.k. En hafi þeir ekki gert það ber að gera athugasemd við það, að þeir hafi ekki hlustað á sjónarmið gesta, ekki boðað menn til fundar og hafi ekki kynnt sér málið í hörgul. Við erum að fjalla um þessi nefndarálit í dag.

1. umr. um málið með ráðherra er lokið. Þá var hægt að spyrja hana um þau sjónarmið sem fram komu. Síðan tekur nefndin við og í ljós kemur að meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með ákveðnum breytingum. Við erum að ræða um það í dag. Hafi menn efasemdir um að hv. þingmenn í iðnaðarnefnd séu óháðir og geti ekki unnið sjálfstætt þá eiga þeir að spyrja viðkomandi þingmenn. Þeir ættu að spyrja þá: Eruð þið háðir ráðherranum? Getið þið ekki tekið sjálfstæðar ákvarðanir? En menn eiga ekki að kalla ráðherra upp á dekk og spyrja hana um álit nefndarinnar. Með því er gert lítið úr iðnaðarnefnd.

Ég bið hv. þingmann að sýna nefndarstarfinu þá virðingu að ræða um þetta frumvarp við nefndarmenn, um þessi nefndarálit sem komu frá henni. Ég treysti því að hún hafi hlustað á alla gesti og tekið málefnalega afstöðu í málinu. Ég treysti því að þessi nefndarálit séu rétt unnin og breytingartillögurnar séu að bestra manna yfirsýn, líka sú tillaga sem lögð er til um að vísa málinu frá. Mér finnst hún eiga rétt á sér líka. Við eigum að skoða hana og ganga til atkvæða um tillögurnar sem allra fyrst.