132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Breytingar í nýjum vatnalögum.

[11:07]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er verið að vitna í einn af verktökunum sem sömdu þetta frumvarp og það er munurinn á því hvernig menn fara með vatnalög á Alþingi á þessu ári þegar borið er saman við hvernig menn tóku á þeim á sínum tíma, í kringum 1920. Þá var sett nefnd þingsins til þess að semja vatnalagafrumvarp. Hún klofnaði og það var síðan þingið sem náði samstöðu um að búa til þann bræðing sem vatnalögin eru. Það varð pólitísk samstaða Alþingis um niðurstöðuna.

Nú setja menn verktakana í málið. Svo eiga menn að taka mark á verktökunum þegar þeir koma og segja að þetta sé fínt hjá þeim, góð niðurstaða. Svo er vitnað í fræðimenn út og suður. Hvað voru þessir fæðimenn að fjalla um? Hvert var raunverulega inntakið sem var farið yfir? Það snerist allt saman um hagnýtingarréttinn (Gripið fram í: Þetta er rangt.) á vatninu (Gripið fram í: Bara rangt.) en ekki eignarhaldið. Það er fáránlegt að halda þessu fram.

Síðan er ástæða til að veita athygli orðum þess manns sem hér hefur verið vitnað í, Karls Axelssonar, á fundinum í gær. Hann sagði þar og tók sem dæmi að það væri ástæða til að breyta réttarstöðunni vegna þess að það hefði getað komið upp vandamál, t.d. við virkjun eins og Kárahnjúkavirkjun. Það hefur aldrei komið fram á fundum nefndarinnar að þetta gæti breytt réttarstöðunni. Ég krefst þess að nefndin komi saman og að menn verði kallaðir þar til til að útskýra hvort slíkar framkvæmdir hafi aðra réttarstöðu eftir að þessi lög hafa verið samþykkt en fyrir. Ég krefst þess að hv. formaður nefndarinnar geri það, hann sjái til þess að við fáum útskýringar á orðum þessa verktaka sem samdi þetta frumvarp. (Gripið fram í: Já, verktaka.)