132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Breytingar í nýjum vatnalögum.

[11:12]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það atriði sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vakti hér á athygli í ræðu sinni er engar dylgjur. Þarna kom hann einmitt að kjarna málsins. Auðmenn þessa lands hafa gert sér grein fyrir því að í íslensku vatni eru falin stórkostleg viðskiptatækifæri til framtíðar. Það er það sem hefur gerst og þess vegna fáum við þessi lög núna. Og af hverju fáum við þessi lög núna með þessum hætti? Hvernig stendur á því að þeir vilja núna allt í einu taka gömlu vatnalögin til endurskoðunar og setja inn í þau skýr ákvæði um eignarhald á vatni? Jú, það er vegna þess að þeir hafa lært af reynslunni. Þeir lærðu af reynslunni þegar lögin um stjórn fiskveiða voru sett því að þá voru einmitt einhverjir þingmenn sem hugsuðu heila hugsun og sáu til þess að í 1. gr. laga um fiskveiðar var sett ein setning. Sú setning hljómar svo, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“

Hún hefur allar götur síðan verið mikill þyrnir í augum þessara manna, þessi litla setning, vegna þess að hún hefur staðið í vegi fyrir því að þeir gætu lýst því yfir að fiskurinn í hafinu umhverfis Ísland væri einkaeign þeirra. En núna ætla þeir að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann, núna ætla þeir að setja þessi lög áður en þjóðin áttar sig á því hvað hér er að gerast, áður en jafnvel Alþingi áttar sig á því hvað hér er að gerast. Þeir ætla núna að búa þannig um hnútana að það verði búið að tryggja eignarhaldið á vatninu áður en vatnið verður að þeirri stórkostlegu auðlind, peningaauðlind sem það mun verða í framtíðinni. Flóknara er nú málið ekki og þetta ætti fólk að fara að skoða.