132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Breytingar í nýjum vatnalögum.

[11:20]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að nota tækifærið og óska hæstv. forseta til hamingju með afmælið. En svo vil ég líka halda áfram og óska hæstv. forsætisráðherra til hamingju með það hversu farsællega honum hefur tekist að gleyma sinni eigin framgöngu hér veturinn 1993–1994 þegar verið var að ræða EES-samninginn. Ég man ekki betur en hæstv. forsætisráðherra hafi þá verið í fylkingarbrjósti þeirra sem töluðu hér látlaust vegna þess að þeir höfðu einlæga sannfæringu fyrir því að það mál sem þá var rætt væri ekki jákvætt þó að reynslan hafi sýnt annað.

Mér finnst það líka heldur umhendis þegar hæstv. forsætisráðherra kemur hér og segir að hann skilji ekki mál hv. þingmanna þegar hann hefur ekki setið undir ræðunum. Enda kom það glögglega í ljós að hann gerir sér enga grein fyrir því að hér hefur verið lögð fram frávísunartillaga af hálfu stjórnarandstöðunnar. (Gripið fram í.)

En frú forseti. Ég segi það eitt að þær upplýsingar sem fram komu í gær í máli Karls Axelssonar í Ríkisútvarpinu sýna að þingið hefur verið blekkt. Talsmenn stjórnarliðsins hafa sagt að þetta frumvarp feli enga breytingu í sér. En hann sagði í gær að þetta hefði hugsanlega í för með sér breytta réttarstöðu þegar kemur að stórvirkjunum. Þess vegna tek ég undir kröfu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um að iðnaðarnefnd verði kölluð saman og umræðu verði frestað til að við getum fengið þessar upplýsingar.

Það er auðvitað hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem ber ábyrgð á þessu. Hann stýrir för málsins hér í gegnum þingið og það er bersýnilegt að hann og aðrir hafa haldið svo á málum að þetta lykilatriði hefur ekki verið upplýst. Það er til stórkostlegra vansa fyrir ríkisstjórnina að þetta skuli koma fram núna og það liggur alveg ljóst fyrir að hún er að blekkja þingið og þjóðina.