132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:11]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er spurt að því hér hvort skynsamlegt væri að halda umræðu um þetta málefni áfram eftir ítarlega umræðu í marga daga, en ekki að sama skapi málefnalega að því leyti til að það hafa ekki farið fram nein skoðanaskipti á milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga (Gripið fram í: … þeir eru ekki í salnum.) vegna þess að hér eru 15 menn á mælendaskrá, þeir eru allir frá stjórnarandstöðunni og þess vegna er ekki hægt að hér fari fram eðlileg skoðanaskipti, fyrir utan einn hv. stjórnarþingmann. (Gripið fram í.)

Ég kem hér upp til að styðja hv. formann iðnaðarnefndar Birki Jón Jónsson, sem hefur staðið hér vaktina alla daga, hvern einasta tíma. Hann hefur sinnt starfi sínu afskaplega vel. Hann afgreiddi málið úr nefndinni en þaðan komu tvö álit. Það er ekkert nýtt hér á hv. Alþingi að fram komi fleiri en eitt álit úr nefndum, stundum eru þau tvö og stundum eru þau þrjú eða jafnvel fleiri. Það er bara ósköp eðlilegt þegar menn eru ekki sammála í öllum málum og þannig er nú einu sinni þetta lýðræði.

Umræðan hefur nú farið fram í meira en 30 tíma og þetta er auðvitað ekkert annað en málþóf. Þegar verið er að tala um viðveru þingmanna, sem mér finnst nú alltaf mjög lágkúrulegt, þá er það bara þannig að þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haldið hér þriggja til fimm tíma ræður þá hefur yfirleitt enginn verið í þingsalnum, hvorki stjórnarliðar né stjórnarandstæðingar vegna þess að þetta er alveg steingeld umræða, algjörlega steingeld. Það er ekki lýðræðinu til sóma að halda uppi svona málþófi.

Þetta er ekki til bóta, sagði hv. þm. Hlynur Hallsson, ég er algjörlega sammála. Nú ráðlegg ég mönnum að fara að stytta mál sitt, ljúkum þessu í dag. Við getum lokið umræðunni fyrir klukkan fjögur og síðan, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson bauð, að málið yrði tekið inn milli 2. og 3. umr. og þá fengnir til nefndarinnar til þess bærir menn. Ég legg til að hv. þingmenn verði nú einu sinni skynsamir, stytti mál sitt og ljúki málinu fyrir fjögur í dag.