132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Skortur á hágæsluþjónustu á barnaspítalanum.

[15:04]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Nú hefur sú staðreynd legið fyrir í talsverðan tíma að það vantar sárlega hágæsluherbergi á Barnaspítala Hringsins og hafa hv. þingmenn eins og Margrét Frímannsdóttir og Gunnar Örlygsson veitt þessu máli verðskuldaða athygli með heimsóknum og fyrirspurn.

Vegalengdin milli barnaspítalans og gjörgæsludeildarinnar á Landspítalanum er löng. Þess finnast jafnvel sorgleg dæmi að þessi vegalengd hafi reynst of löng enda geta mínútur og jafnvel sekúndur skipt sköpum. Það verður að hefja rekstur á sérstöku hágæsluherbergi á barnaspítalanum og auka þannig öryggi og þjónustustig spítalans. Plássið er fyrir hendi og kostnaðurinn af slíkri deild er ekki mikill, sérstaklega í ljósi þeirra gríðarlegu hagsmuna sem eru í húfi. Þessi hágæsluþjónusta innan barnaspítalans mundi kosta um 60–80 millj. kr. á ári. Landspítalinn kostar hins vegar 30 þús. millj. kr. á hverju ári. Við erum því aðeins að tala um 0,2% af heildarrekstrarkostnaði spítalans, 0,2% fyrir þjónustu sem getur reynst lífsnauðsynleg.

Í umræðunni fyrir jól um fjárlög þessa árs fyrir aðeins um fjórum mánuðum lögðum við fram beina tillögu á Alþingi um að þessari viðbótarfjárhæð yrði veitt til Landspítalans svo að hægt væri að starfrækja svona hágæsluþjónustu á barnaspítalanum. Tillagan var því miður felld. Nýr hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í fréttum nýlega að Ísland hefði besta heilbrigðiskerfi í heimi. En á meðan þessi alvarlega brotalöm er á kerfinu, á meðan börn og fjölskyldur þeirra búa ekki við hámarksöryggi finnst mér ekki hægt að halda því fram að hér sé til staðar besta heilbrigðiskerfi í heimi þrátt fyrir mjög hæft starfsfólk.

Ég skora því á nýjan heilbrigðisráðherra að sýna þann vilja að kippa þessu máli strax í liðinn. Það væri glæsilegt upphaf hjá henni sem nýjum heilbrigðisráðherra.

Frú forseti. Hér vantar eingöngu pólitískan vilja, gerum rétt og náum þverpólitískri samstöðu í dag og afgreiðum þetta hratt og vel.