132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Skortur á hágæsluþjónustu á barnaspítalanum.

[15:09]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S):

Frú forseti. Í Kompássþætti Stöðvar 2 í gærkvöldi rakti fréttamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson þá stöðu mála sem ríkir í hágæslumálum innan Barnaspítala Hringsins. Í þessum fréttaskýringaþætti voru tekin viðtöl við foreldra sem lýstu reynslu sinni með ótrúlegum styrk og mikilli ósérhlífni þar sem hlaupa þurfti langar vegalengdir með fársjúkt barn eða frá barnaspítalanum yfir á gjörgæsludeild Landspítalans.

Á síðasta ári vakti ég athygli á málinu með fyrirspurn sem ég lagði fyrir þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson. Ég túlka svar ráðherrans við fyrirspurn minni á þann veg að umræddur vandi innan barnaspítalans sé fyllilega viðurkenndur og að unnið sé að því innan ráðuneytisins og yfirstjórnar Landspítala – háskólasjúkrahúss að finna lausn sem allir geta unað sáttir við.

Frú forseti. Til að fyrirbyggja að slíkir atburðir endurtaki sig er afar mikilvægt að nýskipaður hæstv. heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, taki nú af skarið ásamt yfirstjórn Landspítala – háskólasjúkrahúss og ljúki verki forvera síns með því að tryggja strax á þessu ári sólarhringsrekstur á hágæslueiningu innan Barnaspítala Hringsins. Hér í þinginu virðist vera að myndast þverpólitísk samstaða um þetta mikilvæga mál og því ekki eftir neinu að bíða. Yngstu og veikustu börnin eiga sér engan málsvara, ekkert félag og engin skipuleg starfsemi fer fram þar sem barist er fyrir rétti barnanna í málum sem þessum. Það er því skylda okkar, löggjafans, að taka upp málið og fleyta því alla leið í heimahöfn.