132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Skortur á hágæsluþjónustu á barnaspítalanum.

[15:10]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu mál sem lagt var fram áður í skriflegri fyrirspurn eins og kom fram í máli hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og auðvitað í kjölfar þess þáttar sem þingmenn fylgdust með í gærkvöldi. Mér fannst koma skýrt fram í máli ráðherrans að auðvitað er þetta mál til skoðunar sem og önnur mál, en það er ýmislegt sem menn verða að hafa í huga varðandi þetta, aðstaðan sem fyrir er á spítalanum, um hve mörg börn er að ræða. Þá veltir maður fyrir sér hvort um nógu mörg börn sé að ræða til þess að starfsfólk haldi sér í vissri þjálfun því að slík starfsemi útheimtir auðvitað mikla sérþekkingu. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég velti fyrir mér og menn hljóta að skoða.

Mér finnst þetta líka sýna enn á ný nauðsyn þess að byggja upp nýjan, sameinaðan spítala við Hringbrautina, sem auðvitað öll plön og áform gera ráð fyrir, þar sem sameina á allar bráðamóttökur spítalans á einn stað. Það er engin tilviljun að Barnaspítali Hringsins skuli hafa verið byggður einmitt á þessum stað því að í framtíðinni verður væntanlega gott aðgengi þarna á milli.

En eins og ráðherrann benti á höfum við mjög gott heilbrigðiskerfi hér á landi sem Landspítalinn og aðrar stofnanir kerfisins og auðvitað starfsmenn taka þátt í og eiga þakkir skildar fyrir. Hér var bent á ýmsar samanburðartölur sem styðja þetta en það er allt sem bendir til þess og það er ekki nóg að burðarmálsdauði styðji þá fullyrðingu heldur einnig lífslíkur og aðrar samanburðartölur sem menn nota til þess að bera saman góð heilbrigðiskerfi.