132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Skortur á hágæsluþjónustu á barnaspítalanum.

[15:12]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög alvarlegt mál sem er vöntun á hágæsluaðstöðu fyrir veikustu börnin á Barnaspítala Hringsins en þingflokkur Samfylkingarinnar hefur látið sig mál þetta mjög varða. Við fórum öll og skoðuðum aðstæður á barnaspítalanum en Margrét Frímannsdóttir hefur tekið þetta mál upp og síðan Gunnar Örlygsson. Mig langar til að vitna aðeins í svar sem hv. þm. Gunnar Örlygsson fékk við fyrirspurn um þetta mál og spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, sem ný er komin til ráðherrastarfa, hvernig hún muni bregðast við, því að í svarinu til hv. þingmanns segir fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra:

„Stjórnendur Landspítalans hafa nú til skoðunar með hvaða hætti mætti þróa og koma fyrir hágæsluaðstöðu á Barnaspítala Hringsins og reka hana með sem hagkvæmustum hætti. Er gert ráð fyrir að tillögur stjórnenda komi til skoðunar ráðherra áður en langt um líður.“

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær býst hún við að fá þessar tillögur og hvernig mun hún fylgja þeim eftir því að hér segir að ráðherra muni taka næstu skref í samráði við stjórnendur Landspítala – háskólasjúkrahúss? Það kom fram á fundum með þingflokknum fyrir jól að það væri mjög mikilvægt að hafa þessa aðstöðu. Hún kostar ekki nema 60 millj. kr. en það er upphæð sem við lögðum til við fjárlagagerðina síðast en náði ekki fram að ganga. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé tilbúin að leggja það fjármagn fram t.d. af ráðstöfunarfé ráðherra þangað til þetta verður samþykkt í þinginu, því að mér heyrist á þeim sem hér hafa talað að það sé þverpólitísk samstaða um að koma þessari aðstöðu á því að fullkominn barnaspítali þarf hágæslu og það hefur sýnt sig á undanförnum mánuðum.