132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Skortur á hágæsluþjónustu á barnaspítalanum.

[15:15]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki auðvelt að taka þátt í umræðu á hinu háa Alþingi um hágæsludeild á barnaspítala Landspítalans í kjölfar þáttarins sem sýndur var í gærkvöldi á sjónvarpsstöðinni NFS. Fáir geta sett sig í stöðu foreldra sem missa barn sitt nema þeir sem reynt hafa.

Í nýjum barnaspítala er húsnæði og aðstaða fyrir hágæsludeild fyrir börn og þar geta allt að sex börn verið inniliggjandi á hverjum tíma. Deildina er hægt að opna með litlum fyrirvara eins og var gert fyrir réttu ári síðan þegar svæsin lungnasýkingarfaraldur tók sig upp og lagðist þungt á börn. Þegar mest var lágu fjögur börn á deildinni.

Aðstaða fyrir hágæsludeild er á sömu hæð og nýburagjörgæslan sem er í almennu tali kölluð vökudeild Barnaspítala Hringsins. Vökudeildin er þekkt fyrir afburða þjónustu og árangur. Vandinn sem stjórnendur Landspítalans standa hins vegar frammi fyrir er að ekki er þörf á að halda hágæsludeild gangandi allt árið, hágæsludeild fyrir börn. Þörfin er tilfallandi en ekki viðvarandi. Því þarf að leita raunhæfra leiða til að leysa vandann. Börn sem þurfa á hágæslu að halda fá meðferð á gjörgæsludeild spítalans sem er í aðalbyggingu sjúkrahússins en þar starfar sérhæft starfsfólk m.a. á sviði gjörgæslu barna. Hins vegar eru nú í gangi skipulagsbreytingar á legudeild barnaspítalans sem fela í sér að styrkja mönnun deildanna þannig að þær geti betur sinnt börnum sem þurfa á hágæslu að halda. Þannig er hægt að samnýta fagfólk á legudeild og vökudeild sem myndar grunn að hágæsluþjónustu fyrir börn innan veggja spítalans.

Ljóst er að íslenskt fagfólk í heilbrigðisþjónustu er mjög fært. Það hefur þekkingu og þjálfun til að takast á við bráðatilvik eins og hjartastopp og öndunarnauð og neyðarteymi er starfandi á spítalanum sem kemur þegar kallað er. Þannig verður ekki annað sagt en að starfsfólk sé ávallt reiðubúið að takast á við erfiðustu aðstæður.