132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[15:32]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til að nefna það enn einu sinni við hæstv. forseta að hún fari nú vandlega yfir stöðu þessa máls, vatnalagafrumvarpsins, og velti því fyrir sér hvort hún eigi ekki að beita sér fyrir því að málið verði tekið til baka og skoðað vandlega með það fyrir augum að það náist á ný sátt í málinu því að hún er brotin með þeirri framkomu sem hér hefur verið viðhöfð.

Við vorum á fundi í iðnaðarnefnd í morgun og ég þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir að kalla nefndina saman til að fá skýringar á ýmsum hlutum sem hér hafa gerst undanfarna daga. Þær fengust heldur dauflegar sumar en það komu líka upp mál á þeim fundi sem vert er að vekja athygli á. Meðal annars virðist vera ástæða til að spyrja hvort sá kafli í þessu frumvarpi sem fjallar um eignarnám muni breyta réttarstöðu þeirra sem hlut eiga að máli hvað eignarnámið varðar. Það er líka ástæða til að velta því fyrir sér hvort ástæðan fyrir þeim gassagangi sem er hér á ferðinni við að troða þessu máli í gegn sé að einhverju leyti sú að menn eigi í einhverjum vandamálum viðkomandi þeim framkvæmdum sem núna eiga sér stað austur á fjörðum. Ef svo er finnst mér að menn eigi að tala hreinskilnislega um þá hluti. Við höfum ekki fengið neinar skýringar á því hvers vegna svo hart er gengið fram.

Það er ástæða til að muna eftir þessu vegna þess að í núgildandi lögum segir að „vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið“ og það á að standa áfram í lögum samkvæmt frumvarpinu. En í lögunum segir einnig: „Nú verður breyting á farvegi eða vatnsmagni af völdum náttúrunnar eða þriðja manns, og verður þeim mein að, sem land eiga að, og skal þeim þá rétt að færa vatnið í samt lag, …“

Það stendur í lögunum í dag að verði þeim mein að sem land eiga að, skuli rétt að færa vatnið í samt lag.

Nú eru engar eignarnámsheimildir í lögunum sem samþykkt voru um Kárahnjúkavirkjun og því þarf að spyrja og fá greið svör við því hvort ástæða sé til að halda að þar sé réttarstaðan önnur vegna þess að okkur hefur verið sagt að öll sú lagasetning sem hér er á ferðinni lúti að formi en ekki breytingu á réttarstöðu.

Ég tel að full ástæða sé til þess að hæstv. forseti fari að huga að því að þetta mál verði tekið til heildarendurskoðunar með það fyrir augum að menn skilji hvað er hér á ferðinni. (Forseti hringir.) Það er a.m.k. ekki ljóst samkvæmt þeim svörum sem við fengum í morgun.