132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[15:39]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði áðan að höfundar frumvarpsins eru enn sömu skoðunar og þeir voru og mér er bæði ljúft og skylt að viðurkenna að það kom fram á fundi í morgun að höfundar frumvarpsins, sem rituðu einnig greinargerð sem fylgir frumvarpinu, eru sömu skoðunar í dag og þeir voru þegar þeir skrifuðu greinargerðina. Mér er bæði ljúft og skylt að staðfesta þetta.

Það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson benti hins vegar á hér í upphafi var að á fundinum kom fram að vatnalögin og sú hugsun sem bjó að baki þeim var fyrst og fremst um það ástand sem var, þ.e. þá tækni sem þá var uppi og þá möguleika sem menn höfðu til að mynda til að færa árfarvegi, vatn og annað slíkt á milli svæða. Hugmyndafræðin var kannski sú, eins og einn höfundur rakti, að þetta væru fyrst og fremst árfarvegir sem mætti breyta með skóflum og haka, eins og hann orðaði það. Aðspurður um þá miklu vatnaflutninga sem fyrirhugaðir eru austur á landi kom vitaskuld skýrt fram að vatnalögin voru ekki hugsuð til að takast á við slíkt. Þess vegna vöknuðu upp spurningar um hvort eignarnámsheimildir gildandi vatnalaga dygðu til að takast á við nauðsynlegt eignarnám vegna þessara miklu vatnaflutninga og í raun og veru komu engin skýr svör fram við því nema að vitaskuld muni þau lög gilda sem verða í gildi þegar ráðist verður í þetta eignarnám. Og eignarnámsheimildir í því vatnalagafrumvarpi sem nú er verið að ræða eru ólíkt víðfeðmari en þær heimildir sem eru í gildandi vatnalögum.

Við vildum fá svör við þessu og m.a. vegna þess, virðulegi forseti, að við höfum fjallað um það hér hvaða nauðsyn sé á því að reka málið á hinu háa Alþingi eins og raun ber vitni. Í hverju felst sú nauðsyn og af hverju er allur þessi asi? Við höfum reynt að kalla þetta fram og vitaskuld vaknaði upp sú spurning hvort svo kunni að vera að það sé nauðsynlegt að festa þessar eignarnámsheimildir í lög til þess að framkvæmdir fyrir austan geti haldið áfram án tafar. Mér finnst mikilvægt, ef sú er raunin, sem lesa mátti úr fundi iðnaðarnefndar í morgun, að Alþingi viti af því svo menn séu ekki að kúldrast með svona hugmyndir neðan jarðar í þeirri miklu umræðu sem hér fer fram um vatnalögin. Ég kalla eftir skýringu á þessu atriði, virðulegi forseti.