132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[15:48]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um það að stundum er gott og hyggilegt að fara sér hægt. Þegar Alþingi setur lög um grundvallarmál á að fara sér hægt. Mér hefur stundum orðið hugsað til þess varðandi lagasetningu sem tengist þessari og lýtur að auðlindum í jörðu — lög sem voru sett á Alþingi 1998 — þá hefðum við betur farið hægar í sakirnar og gefið okkur lengri tíma til að íhuga málið. Við erum nefnilega að fjalla um grundvallaratriði.

Þegar vatnalögin voru sett árið 1923 tók það Alþingi ein fjögur ár að gaumgæfa ýmsa þætti sem að málinu lúta. Okkar tillaga í stjórnarandstöðunni er sú að við gerum einmitt þetta, að við förum okkur hægt.

Þessi dagskrárliður fjallar um stjórn fundarins. Nú vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. forseta þingsins: Hvernig ætlar forsetinn að stýra þessum fundi? Hve lengi á hann að standa? Og hvað með þinghaldið fram undan? Hér brenna ýmis mál á þinginu og úti í þjóðfélaginu. Við höfum sett fram óskir um utandagskrárumræður. Við fáum engin svör við því hvort hægt sé að taka málin upp, um það t.d. hvort eigi að heimila efnafólki að kaupa sig fram fyrir í biðröðum á heilbrigðisstofnunum landsins. Þetta eru málefni sem við viljum ræða enda hafa ríkisstjórnin og fulltrúar hennar hvatt til að efnt verði til umræðu um mál af þessu tagi.

Ekkert getur hins vegar komist að vegna þeirrar þrjósku ríkisstjórnarinnar að halda þessu umdeilda frumvarpi til streitu. Að því leyti tek ég undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Sýnum nú skynsemi og förum okkur hægt. Víkjum þessu máli til hliðar. Gefum okkur betri tíma og könnum hvort við getum náð um það þverpólitískri sátt.