132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[15:51]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ræða hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sé þess eðlis að við ættum aðeins að staldra við inntak hennar. Þó svo að við tökumst á í stjórnmálum og tökumst á hér inni eru samt sem áður stærri hagsmunir í húfi. Það er ekkert nýtt að okkur greini á. Það er ekkert nýtt að við notum þau orð að hér sé um grundvallaratriði að ræða, það skipti ekki máli þó að viðkomandi mál nái fram. Oft og tíðum — þó er ég ekki búinn að vera hérna lengi — hefur maður heyrt að upplýsingar séu ónógar og allt milli himins og jarðar flýgur hér úr ræðustóli.

Ef við erum komin í þá stöðu, ég ætla ekkert að leggja dóm á það enda held ég að það sé ekki hollt að segja hverjum er um að kenna, að við getum ekki komið hér málum í gegn sem meiri hluti er fyrir í þinginu með nokkuð eðlilegum hætti, þegar öll sjónarmið eru komin fram, snýst það um miklu meira en eitt einstakt mál, eða eitt einstakt þing ef út í það er farið. Það snýst, virðulegi forseti, bara um hvernig lýðræðið virkar í þessu landi. Það snýst ekkert bara um þessa stofnun hér því að svo sannarlega erum við með fleiri lýðræðislegar stofnanir sem við höfum mörg hver starfað í. Nú hafa menn alveg frelsi til að hafa allar skoðanir hver á öðrum hér inni og stjórnmálaöflum og fyrir hvað þau standa og hvað þau eru að gera en við hljótum að vera sammála um að það sé okkar hlutverk hér inni að halda virðingu þessarar stofnunar og sjá til þess að við festumst ekki í einhverju öngstræti með mál, sama hvert það er. Við getum ekki bara komið okkur í þá stöðu að ekki sé hægt að ná neinni lendingu. Þess vegna held ég að það væri afskaplega hollt ef menn mundu fara að tillögu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, að forustumenn flokkanna settust niður og skoðuðu hvort hægt væri að finna einhvern flöt á því að lenda þessum málum þannig að allir gætu gengið uppréttir frá því.

Ég held að virðing okkar góða vinnustaðar sem er afskaplega mikilvæg — ég þarf ekki að fara yfir það, æðsta valdastofnun landsins — muni ekki aukast ef við höldum áfram eins og búið er að halda áfram hér undanfarna daga. Við skulum hafa í huga að þessi stofnun stendur fyrir stærri hluti og lýðræðið stendur fyrir stærri hluti, ef þannig má að orði komast, en einstaka mál.