132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[15:58]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er engu líkara en að gervallur þingheimur hafi farið í messu í gær, það svífur svo mikill friðarvilji yfir vötnum. Að sjálfsögðu er það þannig að stjórnarandstaðan er reiðubúin til að láta lýðræðið hafa sinn framgang. Það er einfaldlega þannig að lýðræðið krefst þess líka að mál sem eru samþykkt séu rannsökuð út í hörgul.

Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, formanni iðnaðarnefndar, fyrir að hafa sýnt stjórnarandstöðunni þá virðingu að boða til fundar í iðnaðarnefnd til að ræða ákveðnar spurningar sem komu fram í umræðunni fyrir helgi. Því miður er það þó alger grundvallarforsenda að menn viti á hvaða forsendum málin eru rædd. Hér koma hv. stjórnarliðar og segja að þetta sé engin breyting, þetta sé bara formbreyting, engin eðlisbreyting. Við þurfum að ganga úr skugga um það og þau orð sem aðalhöfundur frumvarpsins hefur látið falla eru ekki sérlega heppileg til að draga úr efasemdum okkar.

Ég sat ekki fund iðnaðarnefndar í morgun en ég hef hér í höndum óformlegt plagg sem aðalhöfundurinn, Karl Axelsson, lét eftir í nefndinni. Í því má sjá viðhorf hans. Það gefur til kynna að ákveðin réttaróvissa sé uppi í framkvæmdum eystra sem verið sé að leysa með þessu frumvarpi. Ef það er svo er stjórnarandstaðan hugsanlega til viðræðu um það en það verður þá að skýra málið út í hörgul.

Í plagginu sem ég hef í höndunum, því sem Karl Axelsson lét af höndum að því er mínir fulltrúar í nefndinni sögðu mér í morgun, segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Við erum búin að sjá forsmekkinn að þessu vegna Kárahnjúkavirkjunar þar sem Jökulsá á Dal er flutt úr farvegi sínum og kemur til með að renna um farveg annars fljóts, þ.e. Jökulsár á Fljótsdal og Lagarfljóts, til sjávar.

Miklar vangaveltur og spurningar hafa þegar vaknað, annars vegar um réttarstöðu fasteignareigenda við Jökulsá á Dal sem sviptir verða vatni og vatnsréttindum, og svo hins vegar um réttarstöðu fasteignareigenda við Jökulsá á Fljótsdal og Lagarfljót þar sem bæta mun í vatn.“

Frú forseti. Hvað er aðalhöfundurinn að segja hérna? Hann segir að réttaróvissa ríki í tengslum við framkvæmdirnar fyrir austan. Gott og vel, leysum sameiginlega úr því, ef þarf, með lögum en við þurfum hins vegar að vita hvort þetta sé hluti af því sem rekur svona fast á eftir að þetta mál sé keyrt í gegn með þessum asa. Ég skil ekki hvers vegna það er svona mikill þrýstingur á mál sem hæstv. ráðherra segir að skipti í sjálfu sér engu máli. Er það þetta, er það einhver óvissa varðandi framkvæmdir við Kárahnjúka eða við nýjar Þjórsárvirkjanir sem tengjast þessu máli? Það þurfum við að vita.