132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Til að upplýsa hæstv. forseta frekar um það sem gerðist á fundi iðnaðarnefndar í morgun tel ég rétt að geta þess að gögn þau sem kallað var eftir af hv. 1. þm. Reykv. n. á fundi hér á föstudaginn voru lögð fram í nefndinni en þau voru einungis lögð fram á því tungumáli sem sýslað er með í kommissjón Evrópusambandsins, þ.e. á ensku. Frá því fyrir helgi hefur verið vitað að óskað yrði eftir að þessi gögn yrðu lögð fram. Það kemur í ljós að gögnin eru undirrituð eða gerð 7. nóvember 2005 og enn liggja þau ekki fyrir í íslenskri þýðingu. Það hlýtur að teljast ámælisvert og á fundi nefndarinnar óskaði ég eftir því við starfsmenn umhverfisráðuneytisins að þýðingu á gögnunum yrði flýtt þannig að við ættum í þessari umræðu auðveldara með að sýsla með þau.

Ég vil að hæstv. forseti viti þetta og tryggi að rekið verði á eftir því að gögnin verði þýdd þannig að hægt sé að sýsla með þau á því tungumáli sem við notum í þessum ræðustóli og á þann hátt sem eðlilegur getur talist.

Það kemur nefnilega í ljós að Ísland hefur skorið sig frá Liechtenstein og Noregi og er með sérbókun varðandi málið. Sú sérbókun er í mínum augum nokkuð flókin þó að ég teljist skilja ensku. Ég varð ekki vör við að það næðist sameiginlegur skilningur á ummælum fulltrúa umhverfisráðuneytisins í nefndinni í morgun. Það var ljóst að fulltrúi Umhverfisstofnunar á fundinum hélt fast við umsögn Umhverfisstofnunar. Hún stríðir þvert gegn ummælum starfsmanns umhverfisráðuneytisins, sem að sjálfsögðu er trúr stefnu síns umhverfisráðherra. Umhverfisráðuneytið er búið að taka afstöðu í þessu máli. Sú afstaða helgast af afstöðu iðnaðarráðherra og afstöðu ríkisstjórnarinnar, þannig að það er eðlilegt að fulltrúi umhverfisráðuneytisins tali fyrir hönd umhverfisráðherra. En stofnanirnar sem sýsla með þessi mál úti í samfélaginu hafa ekki breytt sínu áliti þannig að enn stendur orð gegn orði hvað varðar megingrundvöll þessa máls. Það er enn nokkuð í land með að skýra þau gögn sem komu til okkar í morgun.

Varðandi það sem er að gerast fyrir austan og eignarnámsákvæðin vil ég segja að ég lít svo á að í morgun hafi skilningur minn í þessum efnum verið staðfestur sem er svohljóðandi: Ég tel að löggjöf okkar í dag ráði ekki við þau eignarréttarlegu álitamál sem eru af þeirri stærðargráðu sem upp hafa komið þarna fyrir austan og eru óleyst og við erum að glíma við. (Forseti hringir.) Að mínu mati var skilningur minn að þessu leyti staðfestur.