132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:05]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér hafa komið fram óskir um að formenn stjórnmálaflokkanna komi saman og ræði þá stöðu sem uppi er hvað varðar þinghaldið. Ég óska eftir því, frú forseti, að orðið verði við þeirri ósk sem hefur m.a. komið frá tveimur hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst sjálfsagt að fara fram á það við hæstv. forseta að hún geri einfaldlega hlé nú þegar á störfum þingsins til að kanna hvort hægt sé að ráða fram úr málum hér með því að halda stuttan fund.

Það hefur komið fram í máli manna í iðnaðarnefnd að fundurinn í nefndinni hafi verið mjög góður. Ég get tekið undir það að hann hafi verið gagnlegur fyrir skilning á málinu. Ég verð nú samt að segja að ég fór fram á að ákveðinn sérfræðingur í þessum málum kæmi á fund nefndarinnar til þess að fá fram kjarna málsins. En hv. formaður iðnaðarnefndar fékk ekki þau boð frá mér. Hann svaraði ekki síma í gær þegar ég reyndi að ná í hann. Ég sendi honum tölvuskeyti og því miður var hann upptekinn við að sinna Framsóknarfélaginu á Siglufirði og komst ekki í tölvuna sína í allan morgun. Ég er á því að ef við fáum fram öll gögn málsins gæti það orðið til þess að að einhverju leyti geti náðst niðurstaða í þetta mál.

Ég vil leiðrétta eitt sem fram kom hér undir þessum lið þó að það heyri kannski ekki algjörlega undir fundarstjórn forseta, og ég vona að hæstv. forseti virði það við mig. Það kom fram hér mjög ómerkileg lýsing hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni á því sem fram fór á þessum ágæta fundi. Þar sagði hann í rauninni eingöngu frá annarri hlið málsins þegar hann var að segja frá því hvort vatnatilskipunin hefði einhver áhrif á ákveðna málaflokka. Menn voru ekki sáttir í þeirri nefnd og það var ekki ein mynd sem þar var dregin upp. Það kom fram, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi, að fulltrúi umhverfisráðuneytisins sagði að þetta kæmi náttúruvernd ekkert við. En sérfræðingurinn sem kom frá Umhverfisstofnun var algjörlega ósammála því

Ef við ætlum að koma þessu máli hér áfram og halda virðingu þingsins þá finnst mér að menn eigi að segja satt og rétt frá því sem gerist á nefndarfundum. Annað er ósæmilegt og ég er á því að það sé hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni ekki til framdráttar að draga upp villandi mynd af því sem fram fer á nefndarfundum.