132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:17]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Ég hef fylgst með þeirri umræðu sem farið hefur fram hér undanfarna daga, að hluta til úr fjarlægð og ekki tekið þátt í henni. Þetta eru því fyrstu afskipti mín af henni. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að mér þykir mikils um vert að hér sé rætt um fundarstjórn forseta.

Ég vil líka segja að umræðan í dag er öðruvísi en hún var fyrir helgi. Það er gjörólíkur tónn í ýmsum þingmönnum og ég vil vekja sérstaka athygli á því sem kom fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, varaformanni iðnaðarnefndar, og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaþingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins. Þar er í rauninni áskorun til hæstv. forseta um að málið verði nú sett í örlitla kælingu, eins og við gerum nú gjarnan við vatnið, það er ekki hægt að skilja það öðruvísi.

Að farið yrði eftir tilmælum þessara hv. þingmanna yrði málinu ábyggilega til góðs og framvindu þess hér á þingi. Ég tel að hæstv. forseti hafi ýmsa möguleika til þess að auka virðingu Alþingis með slíkum vinnubrögðum. Það er rétt hjá hæstv. forseta að forseta ber að fara eftir þingsköpum. Forseti hefur vald til að boða til þingfunda hvenær sem forseti telur þörf á slíku.

En það vald sem hæstv. forseta er falið er líka á stundum vandmeðfarið. Ég held að hæstv. forseti ætti að íhuga það mjög vandlega hvort sé ekki betur farið með það vald með því að verða við þeim áskorunum sem hér hafa komið fram, m.a. frá tveimur hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að forustumenn stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi verði kallaðir saman til fundar til að athuga hvort ekki sé hægt að koma þessu máli í annan farveg en við höfum þurft að horfa upp á að undanförnu.

Ég ætla ekki að gerast dómari í málinu og taka undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um að allir hafi farið of langt í málinu. Ég get hins vegar fullyrt að margir hafa farið of langt í málinu. Hv. þingmaður sagði líka að það mundi engu breyta hvort þau lög sem nú eru í gildi stæðu áfram eða frumvarpið sem nú liggur fyrir yrði að lögum. Þá kemur eðlilega upp sú sjálfsagða spurning: Hvað er það sem liggur þá á?

Ég held, frú forseti, að það hljóti að vera hægt að upplýsa, að minnsta kosti á fundi með forustumönnum stjórnmálaflokkanna, hvað það er sem liggur á. Hver vandinn er og kanna hvort ekki sé hægt að leysa þann vanda, ef hann er einhver, í slíkum hópi ef ástæður eru þær að það er ekki hægt að upplýsa þær hér í þingsal sem er auðvitað afar sérkennilegt.

En frú forseti. Það eru mín lokaorð að hæstv. forseti íhugi mjög alvarlega þær ábendingar sem m.a. hafa hér komið frá tveimur hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í dag.