132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:24]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst af öllu upplýsa það að ég hef setið fundi með hæstv. forseta og með formönnum annarra þingflokka. Ég get vottað að hæstv. forseti hefur lagt sig í líma við að skapa sátt um málsmeðferð hér á þingi og lagt fram mörg útspil í þá átt að skapa sátt hér á hv. Alþingi. Því miður hefur sú sátt ekki náðst. (KLM: Það skiptir ekki máli …)

Ég taldi, hæstv. forseti, að það væri leið til sátta að kalla saman iðnaðarnefnd og fá svör við þeim spurningum sem stjórnarandstæðingar lögðu hér fram í umræðu í síðustu viku. Ég taldi það.

Reyndar finnst mér, að umræðan sé nú heldur að dempast og ég fagna því. En ég get ekki tekið undir, og ég mótmæli harðlega orðum hv. þm. Kristjáns Möller um hæstv. iðnaðarráðherra. Að málið sé hér í gíslingu vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra vilji ekki draga það til baka. Hæstv. iðnaðarráðherra, ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hér á þingi standa ekkert ein í þessu máli. Álit Lögmannafélags Íslands, laganefndar Lögmannafélagsins staðfestir að hér sé um góða lagasetningarvenju að ræða. (Gripið fram í.) Við höfum farið yfir það að allir lögspekingar á sviði eignarréttar á 20. öldinni standa með hæstv. ríkisstjórn í þessu máli. (KolH: Ekki … spekingar.) Standa með hæstv. ríkisstjórn í þessu máli og stjórnarmeirihlutanum. Og stjórnarmeirihlutinn stendur hér keikur.

En hæstv. forseti. Ég kom hér upp til að bregðast við ummælum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að það frumvarp sem við ræðum hér sé gert til að mæta réttaróvissu við Kárahnjúkavirkjun. Ég vil leiðrétta þann misskilning. Það kom fram í starfi nefndarinnar í morgun, í ummælum Karls Axelssonar að það muni í engu breyta hvað réttaróvissu varðar um framkvæmdir á Kárahnjúkasvæðinu hvort núverandi vatnalög væru í gildi eða það frumvarp sem við ræðum hér. Engu breyta. Þetta sagði Karl Axelsson skýrt fyrir iðnaðarnefnd í morgun.

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að hér deila menn og hér eru ólík sjónarmið. En hv. formaður Samfylkingar lýsti því áðan yfir að hún teldi að hér væri um efnisbreytingu að ræða. Það er rétt að stjórnarandstaðan er ósammála stjórnarliðum í þessu efni. En er líka ósammála öllum fremstu sérfræðingum á sviði eignarréttar, 20. og 21. aldarinnar, hvað þetta varðar. Svo skal hver dæma fyrir sig hver hefur rétt fyrir sér í þessum efnum. Hér er einungis um formbreytingu að ræða og ég tel mikilvægt að við förum að ljúka þessari umræðu og tek undir þann sáttatón sem ég hef heyrt í máli margra hv. þingmanna í dag.