132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:52]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hann er nokkuð sérkennilegur flóttinn sem er rekinn af sjálfstæðismönnum í þessu máli. Nú þegar farið er að ræða að þeir séu að hverfa frá stuðningi við að einkavæða vatnið og hið umdeilda ákvæði í frumvarpi til laga sem hér um er rætt, þá bresta þeir á með því að stilla því þannig upp að annaðhvort vilji menn þjóðnýta hér allt og alla eða einkavæða allt og alla. Þetta er náttúrlega fráleitur málflutningur af hálfu hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

En það kom mjög skýrt fram í ummælum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að þeir vilja draga það umdeildasta í málinu til baka og leita leiða til að ná sátt við stjórnarandstöðuna. Ég veit ekki hvernig þeir ætla að ná sátt við samstarfsflokkinn í málinu en þeir vilja a.m.k. ná sátt við stjórnarandstöðuna um að komast einhvern veginn klakklaust út úr málinu. Ríkisstjórnin er komin í ógöngur með málið. Það er farið að valda þeim verulegum erfiðleikum. Það vita allir að mikil andstaða við málið er að rísa upp úti í samfélaginu. Þetta blandast að sjálfsögðu umræðu um yfirgripsmikla einkavæðingu á liðnum árum í ýmsum geirum samfélagsins, sumar eiga fullkomlega rétt á sér en aðrar ekki.

Þess vegna hljótum við að kalla eftir því að virðulegur forseti skoði að fresta hérna fundi og leiti leiða til að vinna úr þessum friðarumleitunum sjálfstæðismannanna, þessu hvíta flaggi sem sjálfstæðisþingmennirnir tveir hv. ráku upp fyrr í umræðunni og var engin leið að skilja öðruvísi en svo að þeir vildu leita leiða til að falla frá þessu umdeilda ákvæði í lagafrumvarpinu sem er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo að verið sé að einkavæða vatn á jörðu.

Að stilla því þannig upp að menn vilji þjóðnýta allt við það eitt að vilja halda því ákvæði sem nú er í lögunum hvað þetta varðar er náttúrlega fráleitur málflutningur og svarar sér sjálfur. Þessum málum er ágætlega fyrir komið eins og þau eru nú hvað þetta varðar og engin ástæða til að breyta þessu. En í þessu hræða sporin að sjálfsögðu hvað varðar aðrar auðlindir sem hér hefur verið unnið að á liðnum árum. Eitt af grundvallaratriðunum er að tryggja þjóðareign á helstu auðlindum, fisknum í sjónum, fallvötnunum, vatninu (Gripið fram í: Þjóðlendunum) og þjóðlendunum vissulega en ekki eignarjörðum bænda sem Sjálfstæðisflokkurinn var að reyna að gera upptækar hér með fráleitum hætti og á ekkert skylt við þessa umræðu að öðru leyti en því að það er Sjálfstæðisflokknum til jafnmikillar skammar og þetta mál er. Og þess vegna vildi ég hjálpa þeim út úr málinu með að draga fram þá sáttaumleitan sem hv. þingmenn svo greinilega höfðu hér uppi áðan og vildu draga málið til baka, (Forseti hringir.) til að reyna að fá sátt um málið.