132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:59]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið nokkuð merkilegar umræður hér um fundarstjórn forseta. Ég ætla að halda mig við það að ræða hér aðeins um fundarstjórn forseta og ítreka þá ósk sem ég lagði fram þegar við ræddum þetta mál sl. laugardag. Að þetta mál yrði hreinlega tekið og lagt til hliðar, sett á ís eða í salt, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson orðaði það svo skemmtilega hér áðan.

Ég geri að tillögu minni að þetta verði gert. Því málið er einfaldlega svo vanbúið og stórgallað, það hefur komið svo greinilega fram í umræðum hér. Það eru svo margar spurningar sem hafa vaknað að ég tel að engin önnur leið sé fær. Mér finnst það góð hugmynd að formenn stjórnmálaflokkanna komi nú saman, setjist niður, ræði málið og fari yfir það. Mér þætti það heldur ekki slæm hugmynd að málið í heild sinni yrði tekið og skipuð sérstök nefnd um þessa lagasmíð með fulltrúum allra þingflokka, með svipuðum hætti og við gerðum með fjölmiðlamálin. Að það yrði skipuð slík nefnd og sett í gang vinna til að fara yfir þessa hluti aftur, alveg frá upphafi, og síðan kæmi hér nýtt frumvarp inn í þingið í haust sem allir flokkar gætu staðið að. Ég held að alveg væri hægt að ná lendingu í því máli.

Ég fór yfir afstöðu mína til þessa frumvarps í ræðu sem ég flutti þegar málið var hér til 1. umr. og ég ítreka að ég er ekki á móti því að gömlu lögin frá 1923 séu endurskoðuð. Ég get líka skoðað hluti varðandi nýtingarrétt. En ég get ekki fallist á ákvæði um eignarrétt. Það skal vera alveg á hreinu. Gömlu lögin hafa dugað vel fram til þessa og ég hygg að það sé alveg hægt að ná landi í þessu erfiða máli.

Ég talaði áðan um að mjög alvarlegar spurningar hefðu vaknað. Og af því að formaður landbúnaðarnefndar, hv. þm. Drífa Hjartardóttir, er hér og vegna þess að formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur líka minnst á að hann beri hag bænda mjög fyrir brjósti, þá vil ég leyfa mér að benda á að það liggja fyrir umsagnir frá Bændasamtökunum þar sem gerðar eru mjög alvarlegar athugasemdir við frumvarpið eins og það liggur fyrir núna. Þar er talið að það skerði mjög rétt bænda. Þetta stendur í umsögnum sem eru fylgiskjöl með frumvarpinu. Þar eru líka mjög alvarlegar umsagnir frá Landssambandi veiðifélaga. Ég minni líka á að fyrir þinginu liggja frumvörp sem varða mjög hag bænda en komast nú ekki til 1. umr.

Það eru fleiri slík frumvörp sem liggja fyrir, t.d. frumvarp til laga um lax- og silungsveiði og alls konar lög í kringum þau varðandi tilhögun veiðimála. Við erum líka með frumvarp um breytingu á lögum um lífeyrissjóð bænda sem bíður 1. umr. og að komast í nefnd.

Væri nú ekki nær að við legðum þetta mál til hliðar og færum að ræða mál sem við þurfum að ræða og þurfa að komast til nefndar? Tíminn er að hlaupa frá okkur en ef við færum þessa leið (Forseti hringir.) þá næðum við e.t.v. landi í þessu erfiða máli.