132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[17:02]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Virðulegi forseti. Við erum líklegast búin að ræða um fundarstjórn forseta í einn og hálfan tíma hér í dag og annað eins var það fyrir helgi. Ég hélt að menn væru aðeins farnir að róast í þessari umræðu og við gætum farið að ljúka þessu máli.

Það kom mjög skýrt fram í máli hæstv. umhverfisráðherra fyrir helgina að frumvarp hæstv. umhverfisráðherra og frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra skarast ekki á nokkurn hátt. Ég treysti orðum hæstv. umhverfisráðherra í því.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson talaði um að verið væri að ganga á eignarrétt bænda varðandi lax- og silungsveiði. Það er alrangt. Um lax- og silungsveiði gilda sérlög. Það frumvarp sem liggur fyrir þinginu væri hægt að fara að ræða ef hv. þingmenn færu að stytta mál sitt og ljúka því. Ekki hefur umræðan verið svo málefnaleg. Hv. þm. Jón Gunnarsson sagði áðan að menn kæmust ekki að vegna þess að umræðan væri svo málefnaleg. Ég veit ekki hvað umræða um leikrit Harolds Pinters kemur vatnalögunum við og eitt og annað sem maður hefur verið að hlusta á hér undanfarna daga. Umræður um að það sé verið að taka vatn af fólki eru náttúrlega alveg út í hött, að hv. þingmenn skuli láta það út úr sér að verið sé að taka vatnið af fólki. Það er bara ekki þannig.

Það kom hvergi fram í máli hv. þingmanna Einars Odds Kristjánssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að þeir vildu draga þetta mál til baka. Hvergi nokkurn tíma. Það er mikil oftúlkun. Ég held svei mér þá að hv. þingmaður hafi ekki verið hér í salnum meðan þeir ræddu þessi mál. Það er mikil oftúlkun. Þeir vildu kæla málið en ekki að draga það til baka. Það hefur hvergi komið fram hjá ríkisstjórnarflokkunum að við vildum draga málið til baka.

Ég vildi þá gjarnan heyra hvort stjórnarandstaðan vildi ekki fara að draga andstöðu sína til baka. (MÁ: Hvað vilt þú gera?) Þetta er lagahreinsun, breytir ekki neinu um réttarstöðuna og það er um að gera að við ræðum þetta mál til að komast til botns í því hvað stjórnarandstaðan vill.