132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[17:08]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til að koma hér upp öðru sinni til að rökstyðja frekar þá ósk mín að þetta mál verði hreinlega sett til hliðar eins og það liggur fyrir núna. Ég nefndi hér áðan atriði varðandi hagsmuni bænda. Ég verð að vísa á bug þeim andmælum sem formaður landbúnaðarnefndar, hv. þm. Drífa Hjartardóttir, kom með varðandi fullyrðingar hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, félaga míns í Frjálslynda flokknum.

Það kemur nefnilega fram hér í fylgiskjölum með nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar, sem eru umsagnir, að bændur til að mynda hafa miklar áhyggjur af réttindum sínum, veiðirétti. Ég hef hér t.d. umsögn frá Landssambandi veiðifélaga, dags. 27. nóvember sl., þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Mat okkar er þó að verulega skorti á að skorður séu settar á heimildir fasteignareiganda til aðgerða í ám og vötnum, sbr. VI. og VII. kafla frumvarpsins. Þetta á sérstaklega við þegar aðrir hagsmunir eru faldir í vatnasvæðinu, svo sem veiðiréttur.“

Svo segir hérna síðast:

„Landssamband veiðifélaga gerir kröfu um aðkomu að stjórnsýslu veiðimála í lögum þessum, þar sem það á við, með vísan til núgildandi laga um lax- og silungsveiði.“

Bændasamtök Íslands eru líka með mjög alvarlegar athugasemdir. Kannski þá alvarlegustu. Hún víkur að skilgreiningum. Það er svo illa vandað til þessa frumvarps að menn hafa ekki einu sinni sinnt því að ganga almennilega frá skilgreiningum. Hér er hugtakið búsþarfir skilgreint sem búsþarfir til kvikfjárræktar. Bændasamtökin benda réttilega á að þetta ætti frekar að vera búsþarfir til landbúnaðar. Nú tók ég þátt í að vinna að nýjum búnaðarlögum fyrir örfáum missirum og þá var hv. þm. Drífa Hjartardóttir einmitt formaður landbúnaðarnefndar. Hún veit jafn vel og ég hvað hugtakið landbúnaður merkir. Hugtakið landbúnaður þýðir: „Hvers konar varsla, verndun, nýting og ræktun búfjár, ferskvatnsdýra, lands og auðlinda þess til atvinnu- og verðmætasköpunar, matvælaframleiðsla og þjónusta er tengist slíkri starfsemi.“

(DrH: Við víkkuðum þetta út.) Já, við víkkuðum þetta út. Það var mjög vel gert af okkur.

En í frumvarpinu til vatnalaga er eingöngu talað um að búsþarfir, vatnsnotkun til búsþarfar, sé til kvikfjárræktar, ekki til landbúnaðar. Bara þetta eitt ætti í mínum huga að duga til að allt frumvarpið yrði tekið aftur til gagngerrar endurskoðunar. Það stenst hreinlega ekki skoðun. Það rýrir mjög réttindi bænda. Ég er einn af þeim sem vilja standa vörð um réttindi bænda, að sjálfsögðu. (BJJ: Heyr, heyr.) Já, heyr, heyr, segir formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Þá vil ég mælast til að hann einmitt leggist á árarnar með mér og okkur í Frjálslynda flokknum um að endurskoða þetta frumvarp til vatnalaga svo það geti komið hér aftur inn í þingið í haust í fullri sátt allra þingflokka sem nú eru á Alþingi. (Forseti hringir.) Það væri vel að verki staðið.