132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[19:32]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég hafði einmitt ætlað mér að ræða fundarstjórn forseta og spyrja hann að því hve lengi yrði haldið áfram í kvöld. Við höfum ýmsu að sinna, við þingmenn, þar á meðal á kvöldin eins og sannast á hv. 1. þm. Reykv. n., og þess vegna væri gott að vita hvenær hér lýkur störfum og hvernig maður eigi að haga sér ef maður skreppur frá, hvernig maður eigi þá að haga sér með það að koma aftur og hvað maður geti verið lengi fjarri.

Síðan vil ég alveg sérstaklega ræða við forseta um það að þegar málefni eru talin svo mikilvæg að forseti hefur svo mikið við án þess að tilkynna það fyrir fram að halda um málin fundi eins og nú háttar til að kvöldi eða á dögum sem ekki hafa verið á starfsáætlun þingsins sjái forseti til þess að þingmenn séu allir mættir, og ráðherrar, þeir sem málið á við, þegar þetta gerist. Það hlýtur að vera svo að þegar forseti ákveður að halda slíka fundi séu málin svo mikilvæg að menn séu í raun og veru að bregðast kjósendum sínum og starfsskyldum ef þeir eru ekki viðstaddir umræðuna nema þeir hafi þá lögleg forföll og hafi tilkynnt þau, samanber nýlega umræðu um mætingar þingmanna á þingfundi, þeir hafi tilkynnt þau í svokallaða fjarvistaskrá. Ég ætlast til þess að forseti láti hringja út þá þingmenn og ráðherra, sérstaklega hæstv. iðnaðarráðherra auðvitað og síðan hæstv. umhverfisráðherra sem þarf að vera við þessa umræðu, og tilkynni það að hér standi yfir umræða um svo mikilvægt mál að ekki sé hægt að hafa annan hátt á en að ræða um það á þessu mánudagskvöldi og segja þeim frá því að þeir þingmenn sem hér eru í húsi óski þess að félagar þeirra á þinginu séu einnig viðstaddir umræðuna. Þetta er mjög eðlilegt og ég vil minna forseta á að í þingsköpum okkar, að mig minnir í 53. gr., er öllum þingmönnum skylt að sækja fundi og mér þykir raunar skaði hvað forsetar þingsins eru slakir við að halda það ákvæði í heiðri.

Það má segja að þegar um er að ræða fundi sem eru á útsendri dagskrá og fari fram á venjulegum þingfundatíma hafi menn það sér til afsökunar að þeir hafi a.m.k. kynnt sér málið, viti að þessi fundur sé haldinn, að tiltekin mál séu á dagskrá og menn líti þá svo á að þeir vilji vera þar fjarverandi og standi þannig frammi fyrir kjósendum sínum með það en hér háttar sem sagt alveg (Forseti hringir.) sérstaklega til og þess vegna ber að beita sérstökum aðferðum.